Innlent

Ríkir sameiginlegir hagsmunir þjóða innan Vestnorrænaráðsins

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra segir Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga eiga mikilla hagsmuna að gæta í sameiningu og þjóðirnar séu staðráðnar í að vinna að framgangi þeirra saman. Forseti Íslands var sæmdur heiðursverðlaunum Vestnorrænaráðsins í gær.

Sérstakur hátíðarfundur vegna þrjátíu ára afmælis formlegar samvinnu þjóðþinga Íslands, Færeyja og Grænlands innan Vestnorræna ráðsins stendur nú yfir í Færeyjum. Á sama tíma er Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands í opinberri heimsókn í Færeyjum og var í gær sæmdur heiðursverðlaunum Vestnorræna ráðsins.  En þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt.

Forsetinn hlaut þau fyrir að efla sess vestnorrænu þjóðanna á alþjóðavettvangi og kynna um áraraðir málstað þeirra í viðræðum við erlenda þjóðhöfðingja og forystumenn ríkisstjórna, atvinnulífs og vísinda, einkum þar sem framtíð Norðurslóða er á dagskrá.

Í ávarpi sínu á þinginu í dag sagði Ólafur Ragnar að staða ríkjanna þriggja hefði breyst með auknu mikilvægi norðurslóða. Helstu forysturíki heims í Evrópu, Asíu og Norður Ameríku sýndu ríkjunum nú aukinn áhuga sem fæli í sér ríka ábyrgð þeirra og tækifæri. Mikilvægt væri að ríkin þrjú styrktu tengsl sín og samvinnu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir samstarf þjóðanna hafa þróast mikið á undanförnum 30 árum. Nú snúist samstarfið mikið um sameiginlega hagsmuni þjóðanna á norðurslóðum.

Eru menn samstíga í þessum löndum, skynja menn hagsmunina með sama hætti?

„Mér heyrist það. Við erum með mjög svipaða forgangsröðun hvað þetta varðar. Þar sem er mikil áhersla á umhverfisvernd  og mikilvægi t.d. leitar og björgunar. Og það þurfi að grípa til ýmissa ráðstafana til að geta nýtt tækifærin,“ segir Sigmundur Davíð sem ávarpaði Vestnorrænaráðið í Þórshöfn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×