Innlent

Lið Strætó Norðurlandameistari í ökuleikni í ellefta sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Meðfylgjandi mynd: Keppnislið Strætó 2015
Meðfylgjandi mynd: Keppnislið Strætó 2015 Mynd/Strætó
Vagnstjórar Strætó sigruðu liðakeppnina á árlegu Norðurlandamóti í ökuleikni strætisvagnabílstjóra sem fram fór í Lilleström í Noregi í byrjun águstmánaðar.

Í tilkynningu frá Strætó segir að íslenskir vagnstjórar hafi með þessum sigri unnið keppnina ellefu sinnum auk þess sem þeir hafa unnið ellefu silfurverðlaun og ein bronsverðlaun frá upphafi. Keppnin var fyrst haldin árið 1976 og tóku reykvískir vagnstjórar fyrst þátt árið 1983.

„Að þessu sinni var ekin níu þrauta braut og er hvert lið skipað sex vagnstjórum sem þurfa að aka brautina á sem skemmstum tíma auk þess sem villur í brautinni reiknast í mínútum og bætast við aksturstíma. Samanlagður tími vagnstjóra telst til liðsúrslita auk þess sem árangur hvers og eins telst til einstaklingsúrslita. Norðmenn urðu í öðru sæti á mótinu og Finnar hlutu brons.

Andrés Bergur Bergsson og Sigurjón Guðnason unnu til silfurs og bronsverðlauna í einstaklingskeppninni. Pétur G.Þ. Árnason varð fjórði, Guðsteinn Valdimarsson varð níundi, Guðmundur H Jónsson ellefti og Guðmundur Norðdahl sautjándi,“ segir í tilkynningunni.

Liðsstjórar og dómarar íslenska liðsins voru Hörður Tómasson, Kristján Kjartansson og Jóhann Gunnarsson og þá var Magnús Gunnarsson aðstoðarmaður á braut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×