Fótbolti

Sextán ára sonur Hagi fékk fyrirliðabandið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gheorghe Hagi með fyrirliðabandið í leik með rúmenska landsliðinu.
Gheorghe Hagi með fyrirliðabandið í leik með rúmenska landsliðinu. Vísir/Getty
Gheorghe Hagi er einn besti knattspyrnumaður Rúmena frá upphafi og nú er sonur hans farinn að vinna sig upp metorðastigann hjá félagi sínu í Rúmeníu.

Ianis Hagi, sonur Gheorghe Hagi, er ekki aðeins kominn inn í meistaraflokkslið Viitorul Constanta þrátt fyrir að vera bara sextán ára gamall, því hann er orðin einn af leiðtogunum í einu af bestu liðum landsins.

Ianis Hagi fékk nefnilega fyrirliðabandið um arminn í 2-1 sigri á Universitatea Craiova í gærkvöldi en liðið er með tíu stig eftir fyrstu sex umferðirnar.

„Það er sérstakt að fá að bera fyrirliðabandið svona ungur en ég er vanur því," sagði Ianis Hagi við rúmenska blaðamenn en hann er fyrirliði sautján ára landsliðs Rúmeníu.

Ianis Hagi var reyndar ekki fyrirliði frá upphafi leiksins en hann fékk fyrirliðabandið þegar Razvan Marin var tekinn af velli fjórtán mínútum eftir hálfleik. Ianis Hagi lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Viitorul Constanta í desember í fyrra.

Faðir hans, Gheorghe Hagi, var kallaður Maradona Karpatafjallanna, er allt í öllu hjá Viitorul Constanta. Hann stofnaði félagið, er eigandi þess og stýrir liðinu sem er þekkt fyrir gott yngri flokka starf.

Viitorul Constanta hefur enn ekki tapað á þessu tímabili og í öðru sæti í deildinni með tíu stig. Gheorghe Hagi stofnaði félagið 2009.

Gheorghe Hagi, sem varð fimmtugur á þessu ári, skoraði 35 mörk í 124 landleikjum fyrir Rúmeníu frá 1983 til 2000. Þrjú af þessum mörkum skoraði hann á móti Íslandi þar af eitt á Laugardalsvellinum. Hagi spilaði fyrir bæði Real Madrid (1990-1992) og Barcelona (1994-1996).

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×