Innlent

Segir Vinnumálastofnun ekkert nema umbúðirnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Vélstjóra og málmtæknimanna segir dæmi um að útlendir verktakar vinni störf í álverinu á mun verri kjörum en íslenskir kjarasamningar geri ráð fyrir. Eftirlit Vinnumálastofnunar í þessum efnum sé ónýtt enda sé stofnuninni ekkert nema umbúðirnar.

Stóra bitbeinið í kjaraviðræðum verkalýðsfélaganna í álverinu í Straumsvík við fyrirtækið hefur verið krafa þess um aukna verktöku. Guðmundur Ragnarsson formaður Vélstjóra og málmtæknimanna sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að launakrafan væri í grunninn sú sama og samið hefði verið um á almennum vinnumarkaði.

Með kröfu sinni um aukna verktöku væri Ísal ekki að virða þær fórnir sem starfsfólk hefði lagt á sig á undanförnum árum.

„Það má ekki gleyma því að það er búið að fækka þarna um fimmtíu stöðugildi frá því samningurinn var gerður 2011, síðasti kjarasamningur. Það er orðið mikið álag á starfsfólkinu þarna,“ segir Guðmundur.

Í stað þess að meta þetta væru starfsmenn minntir á viðbótarmánuð sem þeim hafi verið greiddur eftir hrunið 2009 eða fyrir sex árum.

Guðmundur sagði að nú þegar væru dæmi um að útlendingar ynnu störf í álverinu í gegnum verktöku en illa væri fylgst með kjörum þeirra.

„Vinnumálastofnun í dag er algerlega lömuð. Hún á að fylgjast með þessum starfsmannaleigum og tryggja að enginn af þessum erlendu aðilum komi að vinna hér öðruvísi en á lágmarkskjörum ,“ segir Guðmundur og á þar við íslenska kjarasamninga.

Hann hafi heyrt dæmi um að þessir erlendu starfsmenn væru á mun verri kjörum en þeir íslensku málmiðnaðarmenn t.d. sem ynnu hjá álverinu.

„Við erum að tala um tölur sem ég veit af en ég ætla ekki að setja fram beint hér,“ segir Guðmundur.

Tvö hundruð þúsund eða eitthvað slíkt?

„Aðeins kannski yfir það,“ segir Guðmundur

Verkalýðsfélögin í álverinu hafi reynt að fá svör frá Vinnumálastofnun frá því í vor um umsvif erlendra starfsmannaleiga hér á landi en fátt verið um svör. Til að mynda hafi vefur Vinnumálastofnunar fyrir útlendar starfsmannaleigur til að skrá sig legið niðri frá því í vor. Þetta komi niður á eftirlitinu og í raun sé Vinnumálastofnun ónýt sem eftirlitsaðili.

„Áður en menn fara að gefa eitthvað eftir þarf eftirlitið að komast í lag. En það er náttúrlega með Vinnumálastofnun eins og margar opinberar stofnanir á Íslandi í dag. Þetta er ekkert nema umbúðirnar. Það er ekkert innihald. Það er búið að skera niður allt fjármagn. Það er ekki starfsfólk til að sinna einu né neinu,“ sagði Guðmundur Ragnarsson í Bítinu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×