Fótbolti

Stjörnukonur með níu Evrópumörk á þremur dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði tvö mörk í dag.
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði tvö mörk í dag. Vísir/Andri Marinó
Stjarnan vann í dag annan leik sinn í röð í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í fótbolta og tryggði sér hreinan úrslitaleik á móti Apollon frá Kýpur í lokaumferðinni.

Stjarnan fylgdi á eftir fimm marka sigri á maltneska liðinu Hibernians fyrir tveimur dögum með því að vinna 4-0 sigur á liði KÍ Klaksvík frá Færeyjum.

Stjörnukonur eru þar með fullt hús og markatöluna 9-0 eftir fyrstu tvo leikina en aðeins sigurvegari riðilsins kemst í 32 liða úrslit keppninnar.

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna og þær Lára Kristín Pedersen og Poliana skoruðu sitthvort markið. Hin brasilíska Poliana hefur þar með skorað í þremur fyrstu leikjum sínum með Stjörnunni.

Poliana, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Björk Gunnarsdóttir og Francielle áttu síðan allar stoðsendingar í leiknum.

Stjörnukonur voru í stórsókn allan leikinn en fyrsta markið kom þó ekki fyrr en á 50. mínútu og það skoraði Lára Kristín Pedersen.

Harpa Þorsteinsdóttir og Poliana skoruðu með mínútu millibili eftir rúmlega klukkutímaleik og Harpa bætti síðan við öðru marki sínu níu mínútum fyrir leikslok.

Leikur Stjörnunnar og Apollon fer fram á sunnudaginn en riðillinn fer einmitt fram á Kýpur. Stjörnukonur þurfa þar að glíma bæði við heimastúlkur og mikinn hita sem er í þessum hluta Evrópu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×