Innlent

Ráðherra skoðar reglur sem takmarka leiguhækkanir

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Félags- og húsnæðismálaráðherra segir til skoðunar að setja sérstakar reglur til að takmarka hækkun húsaleigu. Formaður Vinstri grænna segir stjórnvöld verða að bregðast við vanda á leigumarkaði og vill setja þak á leiguverð.

Þriðjungur íslenskra heimila er á leigumarkaði og þarf að glíma við ógnarhátt leiguverð, þá sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Sem dæmi má nefna 65 fermetra íbúð hér á Grundarstíg, þar sem mánaðarleigan er 200 þúsund krónur. Formaður Vinstri Grænna kemur fram með þá hugmynd í Fréttablaðinu í dag að setja þak á leiguverð til að takast á við þennan vanda.

„Hún felur það í sér í raun og veru að hið opinbera hlutast þá til um það hvað leiguverð má nákvæmlega vera hátt. Þetta er ákveðið inngrip í markaðslögmálin á leigumarkaði. En ég finn það, og ég er viss um að allir kollegar mínir í stjórnmálunum finna það, að þetta eru þau mál sem brenna hvað heitast, þá ekki síst hér á íbúum höfuðborgarsvæðisins. Það er annars vegar framboð á leiguhúsnæði og hins vegar verðlag,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna.

Katrín segir þetta fyrirkomulag bæði hafa verið innleitt í Berlín og í Svíþjóð. Þetta sé þó ekki gallalaust, til að mynda sé hætta á því að þetta skapi ekki nægan hvata til að tryggja mikið framboð af leiguhúsnæði.

„En hún hefur þann kost að staða leigjenda verður öruggari, fyrirsjáanleikinn meiri til dæmis hvað varðar leiguverð,“ segir Katrín.

Ráðherra skoðar reglur sem takmarka hækkun húsaleigu

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, segist fagna öllum góðum hugmyndum en þessi leið sé þó ekki til sérstakrar skoðunar. Stjórnvöld hafi þó í sumar verið að skoða reglur annarra ríkja þegar kemur að hækkun húsaleigu.

„Við höfum séð að við erum af Norðurlöndunum með minnstu takmarkanirnar á hækkunum. Það eru skýrar reglur í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hvernig staðið er að hækkunum,“ segir Eygló.

Nú sé til skoðunar hvort setja þurfi sérstakar reglur hér á landi til að takmarka hækkun húsaleigu.

„Við sjáum það að þrátt fyrir að við séum með minnstar takmarkanir á hækkun á leigu, þá hefur það ekki leitt til þess að framboð af leiguíbúðum hefur verið meira en í öðrum löndum. Þess vegna tel ég að það sé ástæða til að fara yfir hvort það sé hægt að gera breytingar á lögunum í þessa átt,“ segir Eygló.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×