Innlent

Kristján Þór ósáttur við aksturslag bílstjórans

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra gerði athugasemd við aksturslag ráðherrabifreiðar í Lækjargötu síðastliðinn föstudag. Vísir sagði frá því í gær að bílstjóri Kristjáns Þór hefði ekið bifreið heilbrigðisráðherra eftir gagnstétt Lækjargötunnar og ekið henni upp Hverfisgötuna án þess að virða logandi rautt ljós. Tökumaður Stöðvar 2 var á staðnum og náði atvikinu á myndband.

Atvikið átti sér stað eftir fund ríkisstjórnarinnar í stjórnarráðshúsinu en í myndbandinu má sjá Kristján Þór hlaupa í rigningunni að bílnum og setjast í farþegasæti bifreiðarinnar sem var ekið eftir gagnstéttinni á sjáanlegrar ástæðu.

Sjá einnig: Bíl ráðherra ekið á gangstéttinni á móti rauðu ljósi

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra gengur af fundinum á föstudag.vísir/pjetur
Vísir lagði fram fyrirspurn til ráðherra þar sem hann var spurður hvort hann teldi þetta aksturslag bílstjórans réttlætanlegt. Í svari ráðherra kemur fram að hann telur að sjálfsögðu svona atvik ekki réttlætanlegt og að hann hefði gert athugasemd við aksturslagið þegar atvikið átti sér stað. Er þess getið að sá sem ók ráðherra í þetta skiptið var ekki fastráðinn ráðherrabílstjóri heldur hafði viðkomandi hlaupið í skarðið fyrir ráðherrabílstjórann í forföllum hans.

Þegar Vísir vann fréttina á laugardag var haft samband við lögreglumann hjá umferðardeild lögreglu sem sagði fimm þúsund króna sekt bíða þeirra sem aka upp á gangstétt; stofni bílstjórinn engum í hættu. Valdi bílstjórinn hættu liggur við brotinu fimmtán þúsund króna sekt.

Lögregluþjóninn sagðist ekki viss um hvort bílstjórinn hefði gerst brotlegur gagnvart rauðu ljósinu til viðbótar við fyrra brot þar sem hann ók bifreiðinni hægra megin við umferðarljósin. Það er spurning hvort hægt sé að túlka þetta sem akstur á móti rauðu ljósi. Það er atriði sem lögfræðingarnir okkar myndu skoða,“ sagði lögreglumaðurinn við Vísi en sektin við því broti nemur fimmtán þúsund krónum. Auk fjársektar fá ökumenn punkt í ökuferilskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×