Fótbolti

Sleppti hendi Guðs og fékk áritaða treyju frá Maradona

Eitt frægasta atvik knattspyrnusögunnar. Maradona skorar með hendinni á meðan Peter Shilton virðist ekki geta lyft sér upp af grasinu.
Eitt frægasta atvik knattspyrnusögunnar. Maradona skorar með hendinni á meðan Peter Shilton virðist ekki geta lyft sér upp af grasinu. vísir/getty
Diego Armando Maradona hitti dómarann sem dæmdi einn frægasta leik sögunnar og gaf honum koss og meira til.

Dómarinn sem um ræðir er Túnisbúinn Ali Bennaceur en sá dæmdi leik Argentínu og Englands í átta liða úrslitum á HM í Mexíkó árið 1986.

Í þeim leik fór Maradona á kostum og skoraði tvö af eftirminnilegustu mörkum sögunnar. Hann sólaði allt lið Englands upp úr skónum og skoraði einnig með hendinni.

Eftir leik sagði Maradona að það hefði verið hendi Guðs sem hefði skorað. Margir skilja ekki enn í dag hvernig Bennaceur fór að því að missa af þessu. Argentína fór svo í kjölfarið alla leið og varð heimsmeistari.

Er Maradona og Bennaceur hittust þá skiptust þeir á gjöfum og Maradona rak rembingskoss á kinn dómarans. Dómarinn fékk treyju en Maradona fékk mynd frá dómaranum frá því fyrirliðarnir hittust fyrir leik.

Á treyjuna skrifaði Maradona eðlilega: „Til Ali. Vinur minn að eilífu".

Þessar myndir fara örugglega í taugarnar á mörgum Englendingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×