Innlent

Rangt merktir hamborgar í Krónunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kristinn Skúlason er rekstrarstjóri Krónunnar
Kristinn Skúlason er rekstrarstjóri Krónunnar VÍSIR/Heiða Helgadóttir
Búið er að ganga úr skugga um að ekki séu fleiri pakkningar af 90 gr. hamborgurum merktar innihalda 120 gr. hamborgara í umferð í verslunum Krónunnar eftir að DV greindi frá því að upp hafi komist að slíkar pakkningar væru í sölu.

Þetta staðfestir Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar, í samtali við Vísi.

„Það er búið að fara yfir allar búðirnar og búið að staðfesta að pakkningarnar séu rétt merktar í búðunum. Það er bara þessi eina búð í Mosfellsbæ sem var með vitlaust merktar pakkningar.“

Aðspurður segir Kristinn að þetta sé einangrað tilvik og um mannleg mistök af hálfu framleiðenda hafi verið um að kenna.

„Þetta voru bara örfáir pakkar. Það voru 2-3 pakkar sem voru óvart merktir vitlaust. Þetta er svo lítið að líklega eru þetta bara mannleg mistök. Við munum ekki gera stórmál úr þessi við framleiðandann.“

Ekki í fyrsta sinn sem kjötvörur eru rangt merktar í Krónunni

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem upp kemst um rangar merkingar á vörum í verslunum Krónunnar. Í ágúst á síðasta ári komst upp um að þrjár tegundir af kjötvörum voru merktar íslenskar en upprunaland þeirra var í raun og veru Spánn.

Kristinn telur að ekki sé óeðlilegt að mistök séu gerð miðað við það magn sem afgreidd sé í hverri verslun:

„Það vill svo til að það er fólk sem er að merkja þetta. Það er kannski verið að afgreiða fleiri hundruð tonn í gegnum eina verslun og þá er ekkert óeðlilegt að það séu tveir pakkar vitlaust verðmerktir.“

Í þessu tiltekna tilviki segir Kristinn þó að sökin sé framleiðendans ólíkt fyrri tilvikum.

„Þá var við okkur að sakast en í þessu tilviki kemur þetta merkt til okkur frá framleiðenda.“

Kristinn fagnar því að neytendur séu vel á verði um gæði þeirra vara sem seldar séu í verslunum hér á landi.

„Það er mjög gott að neytendur séu á varðbergi með hvað þeir eru að fá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×