Innlent

Færri Íslendingar ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu

Atli Ísleifsson skrifar
Fleiri sögðust ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu en í fyrra.
Fleiri sögðust ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu en í fyrra. Vísir/Pjetur
73,8 prósent Íslendinga segjast ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu og þar af sögðust 42,4 prósent aðeins ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR þar sem kannað var hvort Íslendingar ætluðu að ferðast innanlands eða utan í sumarfríinu.

Til samanburðar sögðust 83,1 prósent ætla að ferðast innanlands árið 2014 og 52,1 prósent sögðust eingöngu ætla að ferðast innanlands sama ár.

„Fleiri sögðust ætla að ferða utanlands í sumarfríinu í ár en í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 41,6% ætla að ferðast utanlands í sumarfríinu og 10,3% sögðust eingöngu ætla að ferðast utanlands. Til samanburðar sögðust 38,2% ætla að ferðast utanlands árið 2013 og 7,2% sagðist eingöngu ætla að ferðast utanlands sama ár.

Fleiri sögðust ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu en í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 16,0% ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu, borið saman við 9,7% í fyrra.

Munur á ferðahögum Íslendinga eftir búsetu, heimilistekjum og stjórnmálaskoðunum

Þeir sem að búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu voru líklegri til að segjast ætla að ferðast erlendis í sumarfríinu en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni. Þannig sögðust 44,8% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu að þau ætluðu að ferðast erlendis í sumarfríinu, borið saman við 36,7% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni.

Þeir sem höfðu 600 þúsund eða meira í heimilistekjur voru líklegri til að segjast ætla að ferðast í sumarfríinu en þeir sem höfðu heimilistekjur undir 600 þúsund. Þannig sögðust um 90% þeirra sem höfðu meira en 600 þúsund á mánuði í heimilistekjur ætla að ferðast í sumarfríinu, borið saman við um 80% þeirra sem höfðu heimilistekjur á bilinu 250-599 þúsund á mánuðir og 67% þeirra sem höfðu heimilistekjur undir 250 þúsund á mánuði.

Einnig reyndist nokkur munur á ferðahögum eftir stjórnmálaskoðunum. Þeir sem að sögðust styðja Samfylkinguna og Pírata voru líklegastir til að segjast ætla ferðast innanlands í sumar en stuðningsfólk Bjartrar framtíðar var líklegast til að segjast ætla að ferðast erlendis í sumarfríinu. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Samfylkinguna sögðust 82,0% ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu og 78,3% þeirra sem studdu Pírata. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Bjarta framtíð sögðust 55,0% ætla að ferðast erlendis í sumarfríinu.“

Nánar má lesa um könnunina á vef MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×