Innlent

„Rútan er gjörónýt“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Rútan er gjörónýt,“ segir Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins SBA-Norðurleið, en rúta fyrirtækisins varð eldi að bráð á þjóðvegi 1 í Víkurskarði á milli Akureyrar og Húsavíkur á fimmta tímanum í gær.

Gunnar segir eldsupptök ókunn. „Það veit enginn og kemur enginn til með að vita það,“ segir Gunnar en bíllinn var á ferð þegar eldurinn kom upp sem hann segir líklega mega rekja til vélarbilunar.

Rúmlega 20 manns voru í rútunni þegar þetta gerðist en vel gekk að koma farþegum út sem höfðu tíma til að sækja farangurinn sinn. „Fólk tók bara dótið sitt og svo var reynt að slökkva í þessu en það tókst ekki með handslökkvitækjum. Það var nægur tími og það var ekkert óðagot í þessu. Svo bara réðst ekkert við þetta með handslökkvitækjum og því fór sem fór.“

Gunnar segist hafa lagt strax af stað á rútu til að ná í farþegana í Víkurskarði. „En svo þurfti ekki á því að halda því það voru svo margar rútur frá okkur þarna á ferðinni sem tók fólkið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×