Innlent

Braut rúðu í leigubíl því hann fékk ekki far

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjöldi manns var í miðbænum í gær
Fjöldi manns var í miðbænum í gær vísir/pjetur
Brotist var inn í Apótek við Egilsgötu snemma í morgun. Par braut rúðu til að koma sér inn og ræna lyfjum. Þegar lögreglu bar að garði var konan enn á vettvangi en maðurinn hafði reynt að koma sér undan á hlaupum. Hann komst ekki langt og var handtekinn.

Skömmu fyrir fimm í nótt var karlmaður handtekinn er hann ók ölvaður á tvær kyrrstæðar bifreiðar við Skólavörðustíg. Skömmu áður hafði borist tilkynning um að ökumaður hefði ekið yfir fót vegfaranda á Hverfisgötu en ekki er meir vitað um meiðsl þess sem fyrir því varð. Ekki er vitað hvort um sama ökumann sé að ræða en bifreiðarnar voru eins. Rætt verður við ökumanninn er víman rennur af honum.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um eignaspjöll er ungur maður braut bílrúðu í leigubifreið við Lækjargötu. Hafði hann snöggreiðst þegar fólk tók leigubifreið er hann taldi sig eiga rétt á. Leigubílstjórinn og maðurinn höfðu ætlað að útkljá málin á gamla mátann áður en lögreglan skarst í leikinn.

Í Hafnarfirði var kona svipt ökuréttindum eftir að hafa verið tekin ölvuð undir stýri en að öðru leiti var nóttin róleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×