Innlent

Raggagarður stækkaður um helming

Heimir Már Pétursson skrifar
Súðvíkingar og nærsveitarmenn fögnuðu því í gær að lokið er við stækkun leiksvæðis sem kallast Raggagarður en garðurinn hefur allur verið byggður upp á undanförnum árum fyrir söfnunarfé og í sjálfboðavinnu.

Uppbygging Raggagarðs hófst fyrir rúmum tíu árum og undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að stækka hans um helming og hefur fjöldi sjálfboðaliða tekið þátt í framkvæmdunum.

Garðurinn var fyrst tekinn í notkun fyrir áratug að frumkvæði Vilborgar Arnarsdóttur til minningar um son hennar Ragnar sem lést í bílslysi árið 2001. Séra Magnús Erlingsson vígði stækkaðan garð við athöfnina í gær.

Raggagarður er staðsettur í gamla þorpinu í Súðavík enda sumargarður. Hann er ríkulega búinn fjölbreyttum leiktækjum og bættust mörg ný tæki við nú við stækkunina, meðal annars snigill sem Ragnar heitinn smíðaði.  Garðurinn nýtur mikilla vinsælda en í sumar hafa sjö til átta þúsund manns heimsótt hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×