Innlent

Borgarfulltrúi stígur fram: „Mér hefur verið nauðgað og ég hef átt við áfallastreituröskun að stríða“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, stígur nú fram og greinir frá kynferðisofbeldi.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, stígur nú fram og greinir frá kynferðisofbeldi.
„Ég er ekki mikið fyrir að opna mig en ég ætla núna að stíga langt út fyrir þægindarammann og þakka því fólki sem hefur hjálpað mér og öðrum með hugrekki sínu og aflétt þeirri þöggun sem hefur hvíld yfir kynferðisofbeldi og afleiðingum þess.“

Á þessum orðum hefst Facebook-færsla Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, en þar greinir hún frá því að henni hafi verið nauðgað. Vegna þess hafi hún glímt við áfallastreituröskun.

Guðfinna segist ekki þekkja manninn sem nauðgaði henni en að hann hafi búið í húsinu við hliðina á vinkonum hennar þegar hún var barn.

„Það er erfitt að stíga fram og segja frá einhverju sem maður hefur falið svo lengi en það er líka erfitt að halda því leyndu. Ég viðurkenni það fúslega að það að viðurkenna að hafa verið nauðgað og setja þessa færslu hér er eitt það erfiðasta sem ég hef gert en samt ekki jafn erfitt og að hafa lifað með afleiðingum þess í áratugi.“

Guðfinna segir áfallastreituröskun hafa mikil áhrif á daglegt líf þeirra sem þjást af henni og hún segir nauðsynlegt að opna umræðuna um hana:

„Kvíðinn, reiðin, óttinn, skömmin, martraðirnar, endurupplifunin, þráhyggjan, feluleikurinn við að brynja sig svo enginn viti hvað maður hefur gengið í gegnum, dagarnir sem maður hefur þurft að tala sjálfan sig í gegnum daginn til að komast af, félagsfælnin, vonleysið, vörnin, myrkfælnin og allt hitt sem fylgir er erfitt að lifa með og getur bitnað á mörgum enda fylgir slíkri vanlíðan oft hegðun sem enginn skilur en er í raun öskur á hjálp. Því er mikilvægt að opna umræðuna um afleiðingar kynferðisofbeldis og aðstoða þá sem hafa lent í kynferðisofbeldi.“

Ég er ekki mikið fyrir að opna mig en ég ætla núna að stíga langt út fyrir þægindarammann og þakka því fólki sem hefur...

Posted by Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir on Friday, 24 July 2015


Mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram síðustu mánuði og greint frá kynferðisofbeldi, bæði í Beuty Tips-byltingunni svokölluðu og svo núna þegar nær hefur dregið Druslugöngunni sem fram fer á morgun.

Gangan hefst klukkan 14 og verður gengið frá Hallgrímskirkju og niður á Austurvöll. Þar verða ræðuhöld og tónleikar þar sem meðal annars Friðrik Dór og Úlfur Úlfur munu koma fram.


Tengdar fréttir

Segir kynferðisofbeldi af hálfu fyrrum kærasta afleiðingu klámvæðingarinnar

Lilja Karen er ein þeirra sem sagt hefur frá kynferðisofbeldi inn á Facebook-hópnum Beauty Tips. Hún segir fyrrverandi kærasta hafa beitt sig kynferðislegu og andlegu ofbeldi þegar hún var 14 ára gömul og brotin hafi verið afleiðing klámvæðingarinnar þar sem hann hafi verið heltekinn af klámi og sótt hugmyndir sínar um kynlíf þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×