Innlent

Þriggja mánaða skilorð fyrir manndráp af gáleysi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Biskupstungnabraut var lokað í kjölfar slyssins.
Biskupstungnabraut var lokað í kjölfar slyssins. vísir/óli kr.
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt tékkneskan karlmann, Martin Michale, í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi.

Martin var ökumaður bíls sem valt út af Biskupstungnabraut undir Ingólfsfjalli þann 9. apríl síðastliðinn. Mikil hálka var á veginum þegar slysið varð en bíllinn valt nokkrar veltur. Hraði bílsins var alltof mikill miðað við aðstæður.

Sex manns voru í bílnum sem var fimm sæta og lést farþeginn í farangursgeymslunni af sárum sínum. Sá hét Alexandru Bejinariu og var 23 ára Rúmeni. Tekið er fram í dómnum að ökumaðurinn og hinn látni hafi verið bestu vinir. Annar farþegi var fluttur slasaður á sjúkrahús.

Michale játaði skýlaust brot sín fyrir dómi. Auk fyrrgreindrar refsingar var hann sviptur ökuréttindum í eitt ár og gert að greiða allan málskostnað og laun verjanda síns. Sá kostnaður nemur tæpum tveimur milljónum króna.


Tengdar fréttir

Nafn mannsins sem lést

Maðurinn sem lést þegar fólksbifreið lenti út af Biskupstungnabraut skammt frá Alviðru í fyrrakvöld hét Alexandru Bejinariu, 23 ára Rúmeni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×