Innlent

Krakkar í borginni vilja flytja til útlanda

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Dagur segir eitt stærsta verkefni í byggðamálum sé að tapa ekki samkeppninni við útlönd um nýjar kynslóðir.
Dagur segir eitt stærsta verkefni í byggðamálum sé að tapa ekki samkeppninni við útlönd um nýjar kynslóðir. visir/arnþór
Íslensk ungmenni vilja frekar búa í útlöndum en á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Háskólans á Akureyri. Ungmenni á höfuðborgarsvæðinu eru þar engin undantekning. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þetta stærsta og alvarlegasta byggðamálið. „Ungt fólk vill búa í borgum og sækir í þau lífsgæði sem borgir skapa,“ segir borgarstjórinn. 

„Þetta undirstrikar einfaldlega að við þurfum að standa vel að verki við þróun Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins til þess að tapa ekki samkeppninni við útlönd um þessar nýjar kynslóðir," segir hann. „Og það er kannski alvarlegasta og stærsta viðfangsefnið í byggðamálum til framtíðar.“

Þóroddur Bjarnason prófessor.vísir/gva
Töluvert forspárgildi

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir að niðurstöður rannsóknarinnar hafi gefið vísbendingar um byggðaþróun næstu ára. „Við erum búin að gera þessar rannsóknir í rúm 20 ár og við sjáum að þetta hefur töluvert forspárgildi fyrir raunverulega byggðaþróun,“ segir hann. 

„Ef við skoðum einstaka staði á landinu þá hvað krakkarnir ætla sér í 10 bekk, það skýrir um það bil sextíu prósent af byggðaþróuninni næstu tuttugu árin,“ segir hann.

Vilja flytja úr borginni og út

„Munurinn á milli landsbyggðarinnar og landsbyggðarinnar er alveg horfinn og við sjáum þennan minnkandi áhuga á að búa á höfuðborgarsvæðinu meðal krakka á höfuðborgarsvæðinu. Það eru miklu færri sem vilja búa þar og miklu færri sem búast við því að búa þar í framtíðinni,“ segir Þóroddur.

Rannsóknin er hluti evrópsku ESPAD rannsóknarinnar og nær til allra íslenskra unglinga í 10. bekk grunnskóla. Hátt í fjögur þúsund íslenskir unglingar tóku þátt í ár en rannsóknin er lögð fyrir á fjögurra ára fresti og svarhlutfallið alla jafna gott, um 85-92 prósent. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×