Fótbolti

Áströlsku stelpurnar komnar á blað á HM í Kanada

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyah Simon skorar hér fyrra markið sitt.
Kyah Simon skorar hér fyrra markið sitt. Vísir/Getty
Ástralska kvennalandsliðið sýndi styrk sinn í kvöld þegar liðið vann 2-0 sigur á Nígeríu í öðrum leik sínum á Heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta sem fer þessa dagana fram í Kanada.

Kyah Simon skoraði bæði mörk ástralska liðsins í kvöld en liðið komst með þessum sigri upp í annað sæti riðilsins.

Ástralía tapaði 3-1 á móti Bandaríkjunum í fyrsta leik þrátt fyrir fína frammistöðu en Nígería gerði hinsvegar 3-3 jafntefli við Svíþjóð.

Kyah Simon skoraði fyrra mark sitt á 29. mínútu eftir stoðsendingu fyrirliðans Lisu De Vanna en seinna markið skoraði hún á 68. mínútu eftir sendingu Samanthu Kerr.

Hin nígeríska Cecilia Nku gæti verið í vandræðum eftir að hafa gefið Samanthu Kerr svakalegt olnbogaskot í seinni hálfleiknum en dómari leiksins missti af þessu.

Bandaríkin og Svíþjóð mætast seinna í kvöld í hinum leik riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×