Myndin er sögð stranglega bönnuð börnum og alls ekki fyrir viðkvæma en það heyrir til tíðinda að hópur boðsgesta gangi út af forsýningu íslenskrar kvikmyndar.
Jón Atli Jónasson, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, segir áhorfendum hafa verið brugðið.
Að neðan má sjá stiklu úr myndinni.
„Þetta var of mikið fyrir suma held ég. Mér skildist á þeim sem voru þarna frammi að þetta hefði verið of erfitt stundum. Ég er alveg vanur því, ég hef gert leiksýningar sem eru mjög erfiðar að horfa á og sumir höndla það ekki og fara og maður ber alveg virðingu fyrir því. Og svo fóru kannski einhverjir af því þeir fíluðu þetta ekki. En það var svona general stemningin af því sem ég heyrði, þetta er ekki fyrir viðkvæma,“ segir Jón Atli.
Hann segist vera sáttur við útkomuna. „Ég er mjög sáttur við það sem við gerðum. Við fórum og gerðum myndina sem við ætluðum að gera, það var verkefnið.“
Fjölmargir nafntogaðir karlar og konur voru mætt í Háskólabíó í kvöld. Rithöfundurinn Andri Snær Magnason var á meðal þeirra.
Líkt og Vísir sagði frá fyrr í vikunni þykir umfjöllunarefni myndarinnar líkjast Stokkseyrarmálinu svokallaða.
Sjá einnig:Mikil líkindi með Stokkseyrarmálinu og nýrri íslenskri glæpamynd
Jón Atli sagði í samtali við Vísi við það tilefni myndina ekki eingöngu byggða á Stokkseyrarmálinu heldur sé hún innblásin af nokkrum frelsissviptingarmálum sem hafa átt sér stað á Íslandi undanfarin ár.
„Það hafa komið upp nokkur svona mál og í raun eru þau svona kveikjan að þessu. Við erum ekki að gera mynd um þetta eina sérstaka mál. Auðvitað er margt líkt með því. Þegar um svona mál er að ræða þá fylgir það ákveðnum forsendum og ég er ekkert að segja það af því ég er hræddur við að segja eitthvað annað, ég er bara að segja um hvað myndin er.“
Myndin fer í almenna sýningu á morgun.