Innlent

Ný sprengja í landflótta til Noregs

Jakob Bjarnar skrifar
Atli Steinn kominn upp á norskt fjall og í baksýn er Stavanger; hin nýju heimkynni Atla Steins og Rósu Lindar.
Atli Steinn kominn upp á norskt fjall og í baksýn er Stavanger; hin nýju heimkynni Atla Steins og Rósu Lindar. Mynd/Rósa Lind Björnsdóttir
Atli Steinn Guðmundsson vöruflæðisstjóri hjá ConocoPhillips, sem flutti til Noregs fyrir fimm árum, segist sjá mikinn aukinn áhuga meðal Íslendinga sem vilja flýja Ísland og setjast að í Noregi.

„Ég sé hann mjög greinilega í gegnum fyrirspurnir sem ég fæ frá fólki á Íslandi. Nú orðið er lítið mál að hafa uppi á fólki og hafa samband við það, ég held úti eigin bloggsíðu með skilaboðamöguleika, er á Facebook og hef tekið þátt í opinberri umræðu á Íslandi. Fólk finnur mig og sendir mér misgreinargóðar fyrirspurnir, rauði þráðurinn er alltaf sá sami: Hvernig er staðan á norskum vinnumarkaði, hvernig er sniðugast að nálgast atvinnuumsóknir, hvernig er að leigja þarna, hvernig eru barnabætur og þar fram eftir götunum,“ segir Atli Steinn. Hann við fjórða mann hefur nú sett upp sérstaka upplýsingasíðu þar sem finna má svör við spurningum sem hann er bókstaflega að drukkna í þessa dagana: Íslendingabók hina norsku.



Geturðu reddað mér vinnu?

Atli Steinn og kona hans Rósa Lind Björnsdóttir fluttu út í maí 2010. Fyrstu tvö árin eftir það rigndi yfir hann spurningum frá Íslandi. „Margt kom frá fólki sem ég þekkti fyrir en svo fór maður að fá heilmikið frá bláókunnugu fólki sem annaðhvort hafði verið bent á mig eða heyrt í mér í spjalli við íslenskar útvarpsstöðvar. Allur gangur var á spurningum en mikill munur á fólki eftir því hvort það hafði haft metnað í að rannsaka sjálft og lesa sér til á vefnum eða skellti fyrstu hugleiðingum sínum bara hráum á borðið, „Get ég bara mætt þarna og fengið vinnu?“, „Þarf ég að kunna norsku?“ og auðvitað það sígildasta: „Geturðu reddað mér vinnu?“

Seint á árinu 2011 og yfir 2012 dró mjög úr því að fólk setti sig í samband við Atla Stein með þetta erindi. Hann segir að svo virðist sem þeir sem höfðu ákveðið að standa af sér bankahrunið og eftirhreytur þess virtust fara að eygja von, það styttist í kosningar vorsins 2013 og tónninn í landinu var þannig að greinilegt var að margir ætluðu að sjá hvort landið færi ekki að rísa eftir kosningar.

vísir/getty
En landið reis ekki

„Sú ríkisstjórn sem þá varð til átti erfitt kaldstart og lítið gerðist í þjóðmálum út 2013, leiðréttingarmál Framsóknarflokksins varð viss prófsteinn og þegar ekki var farið að hilla undir neitt þar á haustdögum kom stór bylgja af fyrirspurnum sem gat af sér upplýsingasíðuna Íslendingabók hina norsku,“ segir Atli Steinn. Og hann heldur áfram að rekja stöðuna eins og hún blasir við honum:

„Enn eina sprengjuna hef ég svo upplifað síðan um það bil í október núna í vetur, þá hófst hviða sem stendur enn, nú vilja býsna margir greinilega fara að söðla um. Það sem hefur verið áberandi síðustu mánuði er þegar fólk segir aðeins frá sjálfu sér og þá tekur maður dálítið eftir málflutningi um að viðkomandi hafi sko verið ákveðin(n) í að fara ekki fet árið 2010 og standa af sér holskefluna og svo fylgir gjarnan „...en nú nenni ég þessu stappi bara ekki lengur!“. Þá er fólk gjarnan búið að missa húsnæði ofan af sér, makinn hefur misst sína vinnu, jafnvel báðir aðilar, og róðurinn þyngist hægt og bítandi. Um þetta sjást ótal dæmi í viðtölum fjölmiðla við fólk sem er að komast út í kant á Íslandi.“

Fólk er búið að missa móðinn

Atli Steinn segist ekki hafa haldið neina tölfræði en sveiflan er frá því að heyra frá engum eða örfáum á mánuði upp í nokkrar fyrirspurnir á viku og annað sem bendir í sömu átt er að aðrir Íslendingar hér upplifa það sama. „Hérna er orðið býsna stórt Íslendingasamfélag í landinu og ekki minnst hér í olíufylkinu Rogaland þar sem hvers kyns iðnaður blómstrar, hvort tveggja í tengslum við olíu, húsbyggingar og ýmiss konar þungaflutninga.“

En, hvað er það helst sem fólk nefnir þegar það talar við þig um brottflutning af landinu? Vont veður? Vond stjórnvöld?

„Ég hef nú aldrei heyrt talað um veður beinlínis sem ástæðu fyrir flutningum hingað enda getur nú gengið á ýmsu hér í Noregi á þeim vettvangi þótt hér verði reyndar aldrei almennilegt íslenskt rok. Margir eru náttúrulega saltvondir yfir þeim lífskjörum sem þeir sjá nú fram á að þurfa að sætta sig við um einhvern tíma sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað verður langur. Fólkið, sem var kokhraust árin 2009 og 2010 og bjóst við að öll él birti upp um síðir, er að missa móðinn eftir að hafa sýnt mikla hörku og langlundargeð. Gott dæmi er fólk á mínum aldri, um fertugt, sem hefur kannski verið í fullri þátttöku á vinnumarkaði síðan upp úr 1990 og alltaf farið fetið, komið sér upp húsnæði, farið í sumarfrí til útlanda og rekið bíla án þess að velta sér upp úr einhverjum lúxus. Nú er þessum hópi settur stóllinn fyrir dyrnar og ekki nóg með það, endarnir ná ekki einu sinni saman lengur, langt í frá.“

Atli Steinn segir fólk þurfa að nenna að standa í þessu ef það ætlar að láta verða af því að flytja til Noregs.
Dugmikið fólk á förum

Reyndar er það svo að ef rýnt er í tölur Hagstofunnar þá styðja þær tilfinningu Atla Steins. Árið 2014 fluttu 760 fleiri íslenskir ríkisborgarar úr landi en fluttu til landsins. Alls fluttu 340 íslenskir ríkisborgarar úr landi á síðasta ár.  Flestir fluttust til Noregs, Danmerkur eða Svíþjóðar eða 2,396. En, þessar tölur segja ekki alla söguna. Það fólk sem er að fara af landi brott er fólk sem hefur dug til að breyta, frumkvæði og menntun – þetta er fólkið sem til stóð að stæði undir velferðarkerfinu. Það er farið á braut eða er á förum.

„Ja, þú þarft að nenna að standa í þessu, það er það fyrsta. Við hjónin tókum alla búslóðina á sínum tíma og þegar maður sá einn vormorguninn heiðbláan 40 feta gám frá Eimskip í botnlanganum hjá sér áttaði maður sig á að nú lá næst fyrir að bera allt sitt út í hann og senda það til lands sem maður hafði einu sinni heimsótt á ævinni til að fara í karateæfingabúðir. Á þeim tímapunkti steig ég yfir vissan þröskuld í hugskoti mínu. Það var heilmikið skref og skiljanlega stoppa pælingarnar hjá mörgum áður en þarna er komið sögu,“ segir Atli Steinn.

Svona flutningar kalla á visst frumkvæði og margur iðnaðarmaðurinn rennir auðvitað hýru auga til þessa mikla iðnaðarlands sem Noregur er. „Enginn hópur er þó það stór að ég geti kallað hann afgerandi og forvitnilegt er að fylgjast með því hvernig fólk hagar sínum undirbúningi. Vinur minn einn heitir Ásgeir Elíasson og býr á hæðinni fyrir neðan mig núna. Hann kom hingað út sumarið 2013 með meirapróf upp á vasann og talaði ekki orð í norsku. Eftir að hafa gengið á milli vinnustaða í rúman mánuð var hann farinn að stjórna steypudælu hjá stóru fyrirtæki hérna úti í Sola og er þar enn auk þess að tala orðið reiprennandi norsku sem ég bjóst nú ekki við að heyra nokkru sinni af hans vörum.“

Norðmenn taka Íslendingum fagnandi

Aðrir hafa farið varlegar í sakirnar, að sögn Atla Steins og ekki yfirgefið Ísland án þess að hafa fengið að minnsta kosti vilyrði fyrir afleysingastarfi hér. Sumir hafa látið í sér heyra síðar og þá hefur allt smellgengið upp, viðkomandi fastráðinn í vinnu og fjölskyldan á leiðinni út. „Aðrir hafa ekki náð að festa rætur og snúið til baka, enn aðrir hafa hreinlega ekki fengið neina vinnu og einn eldri herramann þekki ég sem er hamhleypa til vinnu en þurfti hreinlega að sætta sig við að vera sendur til baka af því að hann náði ekki norskunni. Tungumálin verða okkur ekki auðveldari með aldrinum.“

Atli Steinn segir menntun stóran þátt en ekki afgerandi. „Ég þekki hér íslenska viðskiptafræðinga, verkfræðinga, lækna, hjúkrunarfræðinga, allan skalann af iðnaðarmönnum, fjölda meiraprófsbílstjóra og stóran hóp ófaglærðs fólks. Norskur vinnumarkaður býður upp á ákveðinn sveigjanleika og breidd og hér hafa duglegir Íslendingar almennt fengið vinnu enda hafa forstjórar norskra stórfyrirtækja verið með yfirlýsingar í fjölmiðlum um ánægju sína með Íslendinga,“ segir Atli Steinn. Og það er ekki laust við að hann sé ánægður með sig og sína menn þegar hann vitnar í Olav Stangeland hjá T. Stangeland Maskin við Stavanger Aftenblad 2010 -- Atli Steinn er með þessa tilvitnun á hraðbergi: „De kan arbeide, og de står oppreist i nordavind.“

vísir/getty
Fólk á besta aldri á förum

Það fólk sem Atli Steinn sér helst koma til Noregs er á aldrinum 30 til 45 ára, þetta blómaskeið hvers manns á vinnumarkaði. En, þetta er í raun fólk frá rúmlega tvítugu og uppí sextugt sem hann sér flytja til Noregs. Og, eins og áður sagði, er komin upp upplýsingasíða til að svara spurningaflóðinu sem óhjákvæmlega fylgir, en þar má finna praktískar upplýsingar:

„Facebook-síðan Íslendingar í Noregi er heljarmikið samfélag Íslendinga sem annaðhvort búa í Noregi, hafa búið þar eða hafa áhuga á að búa þar. Í þessari áhugabylgju haustið 2013 fylltist þar allt af spurningum um vinnu, leiguhúsnæði, skatta, barnabætur og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Þetta var auðvitað alltaf það sama og fólk var farið að benda nýjum fyrirspyrjendum á að kíkja á „spjallþráðinn þarna síðan á þriðjudaginn“ og þar fram eftir götunum. Sjálfur var ég búinn að koma mér upp nokkrum stöðluðum copy-paste-svörum sem dugðu vel,“ segir Atli Steinn.

Hjálpa löndum sínum að koma sér fyrir

En nú, til að svara þessu nú öllu í eitt skipti fyrir öll og á einum stað tókum sig til fjórir og settu upp þessa síðu, Íslendingabók hina norsku, sem fór í loftið 1. desember 2013. „Þetta var býsna glettilegt samstarf, við höfðum aldrei hist, þekktumst ekki nema af Facebook og búum í Stavanger, Sandefjord, Bergen og Kristiansand. Einn tók að sér tæknilegu hliðina og svo lögðust allir á eitt við að skrifa textann, leiðbeiningar byggðar á okkar eigin þekkingu og reynslu. Mesti reynsluboltinn í hópnum á að baki 30 ár í Noregi, annar er sérfróður um skattkerfið, sumu þurfti að fletta upp hjá opinberum stofnunum en allt skilaði þetta sér að lokum í ritað mál og Íslendingabók leit dagsins ljós. Slóðinni hefur verið deilt víða og okkur borist þakklæti úr ýmsum áttum en auðvitað er ekkert nema sjálfsagt að miðla samlöndum af þeirri reynslu sem við sjálfir höfum öðlast hér, römm er sú taug eins og þar stendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×