Fótbolti

Yfir 62.000 manns mættu til að sjá Kaká og hann klikkaði ekki | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kaká lék sér að leikmönnm New York City FC í gærkvöldi.
Kaká lék sér að leikmönnm New York City FC í gærkvöldi. vísir/getty
Það var boðið upp á alvöru nýliðaslag, eða nýju liða slag, þegar Orlando City SC tók á móti New York City FC í fyrstu umferð 20. leiktíðarinnar í MLS-deildinni í fótbolta í gærkvöldi.

Orlando og New York, sem er í eigu Englandsmeistara Manchester City, komu inn í deildina fyrir þetta tímabil.

Orlando City sem knattspyrnufélag hefur verið til í fjögur ár en spilað í USP Pro-deildinni sem er þriðja efsta deildin í Bandaríkjunum. Það lið þurfti þó formlega að leggja niður til að stofna MLS-liðið þó nafnið haldi sér, liturinn á búningunum og sami þjálfari sé við stjórnvölinn.

Fótboltaáhuginn er gríðarlegur í Orlando eins og sást í gærkvöldi, en 60.000 miðar á Citrus Bowl-leikvanginn seldust upp löngu fyrir leik. Þurfti að bæta við plássi fyrir um 2.500 manns í stæði vegna beiðna um miða á leikinn.

Eins og sjá má á myndunum hér að neðan var stemningin mikil, en leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

David Villa, markahæsti leikmaður spænska landsliðsins frá upphafi, er skærasta stjarna NYC FC og brasilíski knattspyrnusnillingurinn Kaká fer fyrir Orlando-liðinu. Þeir komu báðir við sögu í gær.

Villa lagði upp mark gestanna sem norski Bandaríkjamaðurinn Mix Diskerud skoraði á 76. mínútu með fallegu skoti úr teignum. Diskerud er landsliðsmaður Bandaríkjanna.

Kaká brást þó ekki stuðningsmönnum heimamanna og skoraði jöfnunarmark úr aukaspyrnu sem fór af varnarveggnum og í netið á fyrstu mínútu í uppbótartíma.  Kaká var frábær í leiknum og gat tæplega nokkur maður tekið af honum boltann.

Hér má sjá það helsta úr leiknum en markið hjá Kaká má sjá neðst í fréttinni.

Stemningin er mögnuð í Citrus Bowl í gærkvöldi.vísir/getty
Leikmenn ganga út á völlinn.vísir/getty
David Villa og Kaká eru fyrirliðar.vísir/getty
Kaká sýndi snilli sína.vísir/getty
David Villa lagði upp mark gestanna.vísir/getty
Kaká fagnar jöfnunarmarkinu.vísir/getty
vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×