Skilur tilfinningarnar
„Starf okkar hér byggist einvörðungu á lögum um fullnustu refsinga og reglugerðum sem settar eru eftir þessum lögum. Ég hef hvorki áhuga á að mismuna fólki né myndi komast upp með það. Hvorki ég né fangelsismálastofnun höfum einhvern hag af því að mismuna fólki,“ segir Páll.

Miðað við tvö til þrjú ár
Í kynningarbæklingi fyrir Kvíabryggju er talað um að fangi afpláni að jafnaði ekki lengur en tvö ár. Páll segir að bæklingurinn miði við stöðuna eins og hún var 2008 og hún sé talsvert breytt. Opnum rýmum hafi fjölgað um 200 prósent.
„Það er viðmið en það sem hefur breyst frá því að þessi bæklingur var settur fram árið 2008 er að annað opið fangelsi hefur verið tekið í notkun, það er að segja Sogn. Þar eru tuttugu pláss. Frá árinu 2008 þegar Kvíabryggja var 14 pláss erum við núna með 42 opin pláss sem þýðir að það eru fleiri sem þurfa að vera þar,“ segir hann.

Fáir óska eftir að komast í fangelsi
„Staðan er þannig að ef maður óskar eftir því að afplána dóm sinn sem fyrst þá verðum við við því. Það á jafnt við um mann sem er að koma inn í fyrsta sinn eða tuttugasta sinn og það á jafnt við um mann sem er dæmdur fyrir kynferðisbrot eða fjármunabrot,“ segir hann en tiltölulega sjaldgæft er að menn óski eftir því.
Páll segir það nýmæli að fangar leitist eftir því að komast í afplánun. Enn séu slíkar beiðnir mjög sjaldgæfar. „Þangað til fyrir nokkrum árum síðan var það ekki talinn lúxus að komst framfyrir á boðunarlista. Menn vildu bíða og margir vilja fresta þessu,“ segir hann. „Oftast tökum við menn inn þvert gegn þeirra vilja.“