Innlent

Byrjendalæsi hefur kostað 84,5 milljónir

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Miðstöð skólaþróunar býður einnig upp á innleiðingu stærðfræðikennsluaðferðar sem byggð er á hugmyndafræði byrjendalæsis.
Miðstöð skólaþróunar býður einnig upp á innleiðingu stærðfræðikennsluaðferðar sem byggð er á hugmyndafræði byrjendalæsis. vísir/vilhelm
Tekjur af innleiðingu, fræðsluefni, þróun, eftirfylgni og úrvinnslu úr mati á byrjendalæsi í 83 skólum á árunum 2005-2014 eru 84,5 milljónir og þar af 9,5 milljónir á síðasta ári.

Undanfarið hefur umræða skapast um árangur byrjendalæsis, sem er kennsluaðferð í lestri í fyrstu bekkjum grunnskóla. 83 grunnskólar á landinu hafa keypt kennsluaðferðina af Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri og í samanburði við aðra grunnskóla í landinu hefur aðferðin ekki skilað þeim árangri sem búist var við.

Miðstöðin er sjálfstætt starfandi eining innan hug- og félagsvísindasviðs háskólans sem rekin er af sjálfsaflafé. Heildartekjur miðstöðvarinnar frá 2005-2014 voru um 40 milljónir á ári að jafnaði eða alls 401,5 milljónir króna yfir tímabilið.

Auk byrjendalæsis býður miðstöðin upp á endurmenntun, mat á skólastarfi og alls kyns námskeið tengd kennslu. Einnig er boðið upp á innleiðingu stærðfræðikennslu sem byggð er á hugmyndafræði byrjendalæsis. Engar rannsóknir voru gerðar á byrjendalæsi áður en kennsluaðferðin var innleidd í skólana á síðustu níu árum. Ekki er vitað til þess að rannsóknir hafi verið gerðar á stærðfræðiaðferðinni.

Samkvæmt verðskrá miðstöðvarinnar er grunnkostnaður á innleiðingu byrjendalæsis um 1,1 milljón króna á hvern skóla. Innleiðingin tekur tvö ár. Fréttablaðið hefur í höndunum tvo samninga grunnskóla í landinu við miðstöðina, þar sem greiddar eru 600-900 þúsund krónur fyrir eingöngu annað árið.

Stærsti kostnaðarliðurinn í samningnum hjá minni skólanum er námskeið fyrir kennara eða um 135 þúsund. Næststærsti liðurinn er kennslumappa um byrjendalæsi eða 132 þúsund. Annar kostnaður er t.a.m. smiðjuvinna, kennsluáætlanir, lestrarpróf og úrvinnsla læsisprófa. Ferðakostnaður ráðgjafa miðstöðvarinnar er ekki tekinn með í kostnaðinum. 


Tengdar fréttir

Frekari rök gegn byrjendalæsi opinberuð

Menntamálastofnun stendur við gagnrýni sína á árangur byrjendalæsis. Í ítarlegri skýringu sýnir stofnunin fram á að læsi barna í skólum með byrjendalæsi sé marktækt lakara en í öðrum skólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×