Innlent

Hafa endurhannað vinsælan stafaruglsleik

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jóhannes Benediktsson, formaður Skraflfélags Íslands, heimsækir reglulega móðurömmu sína, Guðbjörgu Lilju Maríusdóttur, til að spila við hana skrafl.
Jóhannes Benediktsson, formaður Skraflfélags Íslands, heimsækir reglulega móðurömmu sína, Guðbjörgu Lilju Maríusdóttur, til að spila við hana skrafl. vísir/anton
Lokið hefur verið við hönnun á nýju stigakerfi fyrir íslenska útgáfu skrafls, stafaleiksins sem byggir á erlendu útgáfunni Scrabble. Að nýja skraflinu stendur Skraflfélag Íslands og segir Jóhannes Benediktsson, formaður félagsins, að vinna við nýja stigakerfið hafi verið afar umfangsmikil og staðið yfir síðasta hálfa árið.

Gamla stigakerfið segir hann vera frá 1990. Það hafi verið búið til af metnaði, en um leið nokkrum vanefnum, enda ekki við tölvukost nútímans að styðjast. Við nánari skoðun hafi það reynst mein­gallað. Hafi leikmaður dregið eina ú-ið voru til dæmis yfir helmingslíkur á sigri hans. Þessi og fleiri vankantar hafi verið lagaðir. „Til dæmis getur sá sem spilar skrafl í nýja kerfinu fundið 70 prósentum fleiri orð þegar hann dregur stafi af handahófi úr pokanum, því stafirnir endurspegla nú íslenskuna betur.“ Jóhannes líkir breytingunni við að teknir hafi verið upp alvöruspaðar í borðtennisleik í stað panna.

Í vinnslu nýja kerfisins segir Jóhannes að virkjaðir hafi verið allir helstu skraflsérfræðingar landsins, um 40 talsins, þar á meðal tölvukarlarnir Hjálmar Gíslason og Vilhjálmur Þorsteinsson og stærðfræðingarnir Stefán Ingi Valdimarsson og Sigrún Helga Lund. Þá hafi verið leigður tími í ofurtölvu til að aðstoða við tölfræðilegan samanburð á rúmlega 10 milljón mögulegum „niðurlögnum“ í leiknum.

Hefðbundið skrafl segir Jóhannes að hafi verið uppselt hér á landi síðustu ár, en leikurinn sé engu að síður afar vinsæll. Fólk spili þetta heima hjá sér og að auki leiki um ellefu þúsund manns reglulega skrafl á netinu, á vefnum ­Netskrafl.is. Höfundur netskraflsins er Vilhjálmur Þorsteinsson og segir Jóhannes að þar verði nýja kerfið líka tekið upp á næstu dögum. Þá sé von á skrafli um næstu jól sem taki mið af þessu „nýja“ eða „íslenska“ kerfi og verði með nýja stafapokann.

Breytingin segir Jóhannes að sé stórmál og jafngildi því í raun að skipta um reglur í skák. Á alþjóðavísu hafi hins vegar lengi verið ræddar breytingar á kerfinu án þess að menn hafi getað komið sér saman um þær. „Þetta kemur væntan­lega til með að vekja mikla athygli ytra.“

Stigagjöf og fjöldi stafa í gamla skraflinu og nýja.Mynd/Skraflfélag Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×