Innlent

Samningum lokið við rúman helming

Óli Kr. Ármannsson skrifar
Frá undirritun samkomulags SALEK hópsins um bætt vinnubrögð gerð kjarasamninga í Iðnó í Reykjavík í lok október.
Frá undirritun samkomulags SALEK hópsins um bætt vinnubrögð gerð kjarasamninga í Iðnó í Reykjavík í lok október. Fréttablaðið/Pjetur
Samið hefur verið við 37 af 64 viðsemjendum Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því að viðræður hófust eftir SALEK-samkomulagið í lok október.

„Við erum bara að vinna í þessu á fullu,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fundir voru hjá Ríkissáttasemjara í gær. „Þetta komst á skrið í byrjun nóvember,“ segir hún. Fyrsti samningurinn sem skrifað var undir var við Skólastjóra­félag Íslands 4. nóvember. Hann var samþykktur 13. nóvember með 69 prósentum atkvæða.

Þá segir Inga Rún að samið hafi verið við starfsmannafélög sveitarfélaganna „í einni kippu“. Þau eru 34. Auk þess hafi samningar náðst við leikskólakennara.

Grunnurinn að samningum sem gerðir hafa verið er launastefnan í SALEK-samkomulaginu. Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að samkomulaginu. „Við gerðum þetta samkomulag að okkar launastefnu,“ segir Inga Rún.

Verkalýðsfélag Akraness hefur höfðað mál fyrir félagsdómi á þeim forsendum að í SALEK-samkomulaginu sé vegið að samningsfrelsi einstakra stéttarfélaga. Félagið skrifi ekki undir samning við sveitarfélögin á forsendum SALEK.

Inga Rún Ólafsdóttir sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga
Inga Rún segir samninganefnd sveitarfélaganna ekki hafa orðið vara við slík viðhorf hjá öðrum stéttarfélögum. „Menn hafa verið mjög samstilltir í að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga og huga að efnahagslífinu,“ segir hún.

Um leið segir Inga Rún ómögulegt að segja til um hvenær takist að ljúka samningum. „Við gefum vel í í desember og fram að jólum.“ Alltaf komi þó upp sértæk mál og ræða þurfi hluti og leysa. 

Fyrir utan félag skólastjórnenda sem þegar hefur samþykkt sinn samning stendur yfir kynning og kosning um samninga hjá öðrum. Rafrænni atkvæðagreiðslu Starfsgreinasambandsins um samninginn sem hófst í gær lýkur á miðnætti þriðjudaginn 8. desember og á niður­staða að vera ljós daginn eftir. Þá er niðurstöðu að vænta í kosningu Eflingar um samninginn 11. þessa mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×