Innlent

Arion banki synjar Pírötum um að opna bankareikning

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Varaformaður Pírata í Borgarbyggð segist hafa áhyggjur af því að Arionbanki skerði borgararéttindi heimilislausra með því að synja þeim um bankareikninga.
Varaformaður Pírata í Borgarbyggð segist hafa áhyggjur af því að Arionbanki skerði borgararéttindi heimilislausra með því að synja þeim um bankareikninga. Fréttablaðið/Stefán
Arion banki í Borgarbyggð hefur synjað aðildarfélagi Pírata þar í bæ um að stofna bankareikning. Að sögn Ágústs S. Beaumont, varaformanns félagsins, er það stjórnarseta hans í stjórnmálasamtökunum sem bankinn setur fyrir sig sem rök fyrir synjuninni.

„Við höfum verið að vinna í því að stofna bankareikning og það hefur gengið alveg ofboðslega hægt,“ segir Ágúst en eftir um þriggja vikna bið synjaði bankinn loks félaginu. „Þeir segja að ég þurfi að segja af mér og einhver annar koma inn í staðinn.“

Upphaflega hafi bankinn borið fyrir sig grun um hugsanlegt peningaþvætti en þegar nánar var grennslast fyrir um það var vandamálið lögheimilisskráning Ágústs. Aðstæðna sinna vegna dvelur hann í sumarhúsi í Borgarbyggð.

„Lögheimilisskráningin kallast „óstaðsettur í hús“ og sú skráning er yfirleitt notuð fyrir fólk sem á ekki hús eða býr á götunni,“ segir hann.

Ágúst S. Beaumont
Ágúst lenti í alvarlegri líkamsárás þegar hann bjó erlendis fyrir nokkrum árum og hefur því verið í endurhæfingu undanfarin ár og þyggur bætur frá Tryggingastofnun.

„Hins vegar notar Tryggingastofnun þetta fyrir þá sem eru heimilislausir. Þeir vildu að ég notaði þessa skráningu af því að þeir vildu ekki greiða mér fullar bætur.“

Ágúst segir bankann setja þá skráningu fyrir sig. Hann hafi ráðfært sig við lögfræðing hjá Þjóðskrá sem hafi sagt honum að hans lögheimilisskráning væri jafn rétthá og hver önnur skráning.

„Og þetta er skerðing á borgararéttindum og hugsanlega brot á stjórnarskránni því að allir þegnar eiga rétt á að fá að taka þátt í stjórnmálastarfsemi,“ segir Ágúst sem kveðst telja það alvarlegt ef fólk á borð við útigangsfólk sé gert að annars flokks borgurum með þessum hætti.

Arion banki tjáir sig ekki um einstaka mál en samkvæmt upplýsingum frá bankanum eru gerðar ítarlegar kröfur um að fjármálastofnanir þekki sína viðskiptavini. Til að mynda til að koma í veg fyrir peningaþvætti og þvíumlíkt. Afla þarf oft ítarlegra upplýsinga þegar stofnað er til viðskipta.

Bankinn er með reglur er snúa að félagasamtökum. Þá þarf upplýsingar um stjórnarmenn og þar á meðal lögheimilisskráningu.

Þó er hægt í sérstökum tilfellum að skoða viðkomandi mál og veita undanþágu frá þeirri reglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×