Innlent

Afmælishátíð Hallgríms Péturssonar styrkt

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Menntamálaráðuneytið fer með umsjón verkefnisins.
Menntamálaráðuneytið fer með umsjón verkefnisins. Vísir/GVA
Ríkisstjórnin hefur, að tillögu forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið að veita allt að 6 milljónum króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu vegna viðburða 2014 og 2015 til að minnast þess að fjórar aldir eru liðnar frá fæðingu Hallgríms Péturssonar, prests og sálmaskálds.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur verið falin umsjón með verkefninu í heild sinni og ráðstöfun framlagsins í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Biskup Íslands og hlutaðeigandi stofnanir og félög.

Fæðingarafmælis Hallgríms verður minnst með margvíslegum hætti. Meðal annars með  ráðstefnum, sýningum, viðburðum og útgáfu rita. Þar á meðal verður fræðileg útgáfa á verkum Hallgríms og útgáfa ætluð almenningi. Unnið hefur verið að undirbúningi hátíðahaldanna í samráði við  Biskup Íslands, Hallgrímskirkju, Listvinafélag Hallgrímskirkju, Guðbrandsstofnun á Hólum, Þjóðminjasafn Íslands og fleiri. Auk þessa fyrirhugar Minjastofnun Íslands að leggja til við forsætisráðherra friðlýsingu Hallgrímskirkju í Saurbæ  á Hvalfjarðarströnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×