Lífið

„Ég fer á bak nánast alla daga“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Arnar Máni er talinn vera einn efnilegasti knapi landsins.
Arnar Máni er talinn vera einn efnilegasti knapi landsins. vísir/arnþór
„Það gekk bara mjög vel, gat stundum verið smá skrítið en mjög skemmtilegt,“ segir hinn tólf ára knapi Arnar Máni Sigurjónsson en honum verður fylgt eftir af tökuliði Kukls á Landsmót hestamanna á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 30. júní til 6. júlí.

„Það var bara hringt í pabba og hann fenginn til að fá mig í þetta,“ segir ungi knapinn en nú þegar hafa verið gerðir sjónvarpsþættir um undirbúning hans og undankeppni. Síðan verða einnig gerðir þættir um þátttöku hans í keppninni sjálfri og þeir klipptir jafnóðum og sýndir í Sjónvarpi Símans.

Arnar Máni var í hestamennsku þegar hann var yngri en hann segir áhugann hafa kviknað fyrir alvöru á landsmóti hestamanna árið 2011. Aðspurður hvort hann sé stressaður fyrir landsmótið segir hann stressið ekki vera byrjað að segja til sín.

„Ég fer á bak nánast alla daga,“ segir Arnar, „en ekki með hestinn sem ég ætla með á landsmót, hann fær að hvíla sig.“ Þrátt fyrir ungan aldur þykir Arnar Máni vera með efnilegustu knöpum á landsmótinu. Hann keppir nú á sínu öðru landsmóti og gerði sér lítið fyrir á dögunum þegar hann vann úrtökumótið hjá Fáki á hestinum Hlekk frá Bjarnarnesi með einkunnina 8,65, sem verður að teljast ansi gott.

Eins og áður hefur komið fram geta áhugasamir fylgst með unga knapanum á Sjónvarpi Símans á sérstakri Landsmótsrás þar sem verða beinar sjónvarpsútsendingar frá Landsmótinu ásamt tuttugu mínútna sjónvarpsþáttum um Arnar Mána.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.