Lífið

Gekk starraunganum Skugga í móðurstað

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Sóley, sem starfar sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, hefur þurft að hafa Skugga sér við hlið í vinnunni en unginn þarf að éta á 20 mínútna fresti.
Sóley, sem starfar sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, hefur þurft að hafa Skugga sér við hlið í vinnunni en unginn þarf að éta á 20 mínútna fresti.
„Hann var pínulítill þegar við fundum hann en hann dafnar ótrúlega vel,“ segir Sóley Kristjánsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, en dóttir hennar fann agnarlítinn starraunga í garðinum heima í síðustu viku. Sóley segist hafa leitað á náðir Facebook til þess að fá ráðleggingar um það hvernig best væri að hugsa um ungann.

„Fólk var ekkert sérlega bjartsýnt um að unginn myndi hafa þetta af, hann var svo lítill. En mér var bent á frábæra heimasíðu, starlingtalk.com, þar sem hægt er að finna allar upplýsingar um það hvað maður eigi að gera ef maður finnur starraunga,“ segir Sóley, sem telur að heimiliskötturinn Dimma hafi fundið hann og komið með heim.

„Kötturinn tekur stundum mýs eða fugla með sér heim til að leika með, hann meiðir dýrin samt ekki. Unginn var því ekkert særður þegar við fundum hann.“

Unginn var ekki stór þegar hann fannst og í raun ótrúlegt að hann skyldi ná að braggast.
Sóley gerir ráð fyrir því að unginn, sem hún hefur nefnt Skugga, hafi ekki verið meira en þriggja daga þegar hann fannst. „Inni á heimasíðunni getur maður séð þær breytingar sem ungarnir taka dag frá degi. Nú er hann farinn að standa í lappirnar og opna augun en það gerist eftir sjö daga. Ég gat því reiknað mig aftur í tímann og fundið út aldurinn.“ 

Sóley segir að starrar séu sérlega gáfaðir en fái oft á tíðum misjafnt umtal. „Starrar eru mjög hreinlegir fuglar og fá yfirleitt ekki flær. Þeir geta lært að tala og geta hermt eftir öllum hljóðum.“ 

Skuggi hefur fylgt Sóleyju í vinnuna síðustu daga en hún þarf að gefa honum að éta á 20 mínútna fresti. „Hann fær blautan kattamat og barnamat. Það var líka mælt með því að gefa honum harðsoðin egg enda nóg af næringarefnum í eggjunum,“ segir Sóley en samstarfsfélagar hennar í Ölgerðinni hafa tekið Skugga vel. 

„Þeim finnst þetta bara skemmtilegt. Ég var samt alveg nógu skrýtin fyrir svo þetta er kannski ekki að hjálpa,“ segir Sóley hress að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.