Innlent

Breyttum kjörseðlum í Reykjavík fækkar um 5.000

Bjarki Ármannsson skrifar
Atkvæði borin inn í ráðhús á laugardag.
Atkvæði borin inn í ráðhús á laugardag. Vísir/Daníel
Útstrikanir og breytingar á kjörseðlum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík voru mikið færri en í síðustu kosningum. Alls var 1.604 seðlum breytt í ár en árið 2010 var 6.915 seðlum breytt.

Einnig ber að athuga að mun færri atkvæði voru greidd í heildina nú en í síðustu kosningum, 56.896 í ár en 63.019 árið 2010. Hlutfallslegur munur er engu að síður mjög mikill, en í ár voru breytingar gerðar á 2,82 prósentum kjörseðla, miðað við 10,97 prósent í kosningunum 2010.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að mögulega hafi mikill fjöldi útstrikana árið 2010 tengst uppnámi hjá almenningi eftir hrunið 2008.

„Fólk vildi senda einhver skilaboð til frambjóðenda,“ segir hún.

Kjarninn greindi frá því í gær að Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, var sá frambjóðandi sem oftast var strikaður út af seðli eða færður um sæti í nýafstöðnum kosningum. Það var gert á 463 kjörseðlum.

Í kosningunum árið 2010 var Gísli Marteinn Baldursson, frambjóðandi sama flokks, hins vegar oftast strikaður út eða færður til, alls um 3.800 sinnum.

Samkvæmt frétt RÚV það árið voru alls sex frambjóðendur úr flokkum sem náðu inn manni í borgarstjórn sem hlutu fleiri útstrikanir en Júlíus Vífill gerði í ár. Þá sem nú voru flestar breytingar gerðar á lista Sjálfstæðisflokksins, 876 í ár en 4.471 árið 2010.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.