Íslenski boltinn

Ég vissi vel að ég gæti skorað

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristján sýndi hvað í honum býr gegn Fylki
Kristján sýndi hvað í honum býr gegn Fylki Vísir/Daníel
Hinn bráðefnilegi leikmaður FH, Kristján Gauti Emilsson, átti frábæran leik og skoraði í 3-0 sigri FH á Fylki. Hann var besti leikmaður 2. umferðar Pepsi-deildar karla að mati Fréttablaðsins.

Það vita allir að mikið býr í Kristjáni Gauta en honum var algjörlega fyrirmunað að skora á síðustu leiktíð. Þá komst hann ekki á blað í deildinni í sextán leikjum.

„Það er hrikalega gott að ná að skora snemma og vera kominn á blað. Ég vissi vel að ég gæti skorað og bara tímaspursmál hvenær mörkin kæmu,“ segir Kristján Gauti og bætir við að markaþurrðin hafi ekkert lagst á sálina.

„Ég var alveg rólegur. Ég komst vissulega í færin í fyrra en það vantaði að klára þau. Ég æfði mikið aukalega með Lauga aðstoðarþjálfara í vetur og gekk vel að skora á undirbúningstímabilinu. Ég kom því fullur sjálfstrausts til leiks.“

Kristján Gauti segist ekki ætla að vera með neinar yfirlýsingar um hversu mikið hann ætli að skora. Í staðinn ætlar hann að láta verkin tala á vellinum.

Hann fór ungur að árum út til Liverpool en sneri svo aftur heim í uppeldisfélagið. Þessi 21 árs strákur fer ekki leynt með að stefnan er tekin aftur út.

„Þetta er mjög mikilvægt tímabil fyrir mig. Ég þarf að sýna að ég hafi það sem til þarf. Ég stefni klárlega aftur út en hvort það verður eftir þetta tímabil eða næsta skiptir ekki öllu máli.“

Yfirburðir FH gegn Fylki voru með ólíkindum. Liðið skaut 24 sinnum að marki og hitti rammann 13 sinnum. Mörkin hefðu því hæglega getað orðið fleiri.

„Á mjög góðum degi hefðum við getað skorað tíu mörk. Við erum ekki að nýta færin vel. Svo hjálpaði ekki að gömlu Fylkismennirnir Ingimundur og Albert voru fullkurteisir við sína gömlu félaga og vildu greinilega ekki skora,“ segir Kristján Gauti léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×