Íslenski boltinn

Ná meistararnir í sín fyrstu stig?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason gnæfir yfir aðra leikmenn í leiknum á móti Val.
Kjartan Henry Finnbogason gnæfir yfir aðra leikmenn í leiknum á móti Val. Vísir/Vilhelm
Önnur umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta fer öll fram í dag og þar af fara tveir leikjanna fram á gervigrasvellinum í Laugardal.

Tvíhöfðinn í Dalnum hefst á leik Víkinga og Fram klukkan 18.00 en klukkan 20.30 fer síðan fram leikur Vals og Keflavíkur, tveggja liða sem unnu góða sigra í fyrstu umferð.

Íslandsmeisturum KR var spáð titlinum fyrir mót en þeir töpuðu 1-2 á móti Val í fyrsta leik og bíða því enn eftir fyrstu stigunum alveg eins og lið Víkinga, Þórs og Fylkis. KR-ingar heimsækja Blika klukkan 19.15 í kvöld í stórleik dagsins. Leikurinn fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ þar sem Kópavogsvöllur er ekki leikfær.

Fyrsti leikur kvöldsins er leikur ÍBV og Stjörnunnar klukkan 17.00 á Hásteinsvelli í Eyjum og Þórsarar taka á móti nýliðum Fjölnis klukkan 18.00 en Grafarvogspiltar sitja í toppsætinu.

FH-ingar bjóða aðra umferðina í röð upp á grasleik þegar þeir fá Fylkisliðið í heimsókn klukkan 19.15 en Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis, er í leikbanni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×