Innlent

Lítið framboð gæti leitt til hærra verðs

Samúel Karl Ólafsson skrifar
Segir að grásleppuveiðin hafi verið mun minni en í fyrra.
Segir að grásleppuveiðin hafi verið mun minni en í fyrra. Mynd/Hörður Sveinsson
„Grásleppuvertíðin hefur, það sem af er, gengið illa. Veiðin hefur verið mun minni en í fyrra og þátttaka hefur einnig verið minni,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Hann segir þennan minni áhuga aðallega skýrast af því að verðið fyrir hrognin sem sé í boði sé mjög lágt. „Þá telja menn að það svari ekki kostnaði að fara af stað í veiðarnar.“ Örn ímyndar sér þó að verðið muni hækka þegar ljóst verður að framboð á hrognum verður mun minna í ár en það var í fyrra. Veiðar Grænlendinga, sem eru sú þjóð sem veiðir á móti okkur og veiddi mest í fyrra, fara einnig mjög illa af stað.

„Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að það verði mun minna framboð á grásleppuhrognum á þessu ári, en hefur verið undanfarin ár. Ég ætla að vona að það verði til þess að verðið hækki og að karlarnir geti haft eitthvað upp úr þessu,“ segir hann.

Veiðin hefur þó verið nokkuð góð það sem af er á Ströndum og hafa grásleppuveiðimenn sem róa frá Drangsnesi og Hólmavík veitt vel.

Á heimasíðu Fiskistofu má sjá að veiðileyfi 162 báta hafa nú verið virkjuð. Í fyrra voru gefin út 284 leyfi en á vertíðinni 2012 voru þau 339 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×