Innlent

Vilja tugþúsunda leiðréttingu

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
 Nemendur við Háskóla Íslands hafa miklar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli háskólakennara. 		Fréttablaðið/Valli
Nemendur við Háskóla Íslands hafa miklar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli háskólakennara. Fréttablaðið/Valli
Ein aðalkrafa Félags háskólakennara er að sama stigakerfi starfsmanna gefi sömu laun, óháð starfsheiti.

Krafan er að öllum akademískum starfsmönnum verði varpað inn í sömu launatöflu. Þá er þess krafist að laun annarra starfsmanna verði færð til samræmis við breytingar sem verða á launum akademískra starfsmanna.

Þetta þýðir á mannamáli að krafa háskólakennara og akademískra starfsmanna snýst um að laun þeirra hækki um 10 til 14 prósent. Sem dæmi má taka að lektor sem hefur unnið sér inn 400 stig vegna rannsókna og greinaskrifa er með 455 þúsund krónur á mánuði.

Prófessor sem er með sama stigafjölda er með 523 þúsund á mánuði. Háskólakennarar telja að laun þessara tveggja manna eigi að vera þau sömu.

Félag háskólakennara telur að þeir hafi dregist aftur úr prófessorum í launum á undanförnum misserum.

Laun háskólakennara og prófessora ákvarðast að hluta til af því hversu margar rannsóknir þeir gera og hversu margar greinar þeir fá birtar í viðurkenndum vísindaritum. Þetta er reiknað til stiga samkvæmt ákveðnum reglum og hækkar laun þeirra.

Í kröfugerð háskólakennara kemur fram að prófessorar, sem eru í sér stéttarfélagi, og aðrir akademískir starfsmenn háskólanna gangast undir sama hæfnismat við ráðningu í störf og árangur þeirra í starfi er mældur með sama hætti.

Að sama stigakerfi gefi sömu laun óháð starfsheitum telja háskólakennarar leiðréttingu á launum. En auk þess krefjast háskólakennarar sömu hækkana og Bandalag háskólamanna.

Félag háskólakennara hefur boðað tímabundið verkfall frá 25. apríl til 10. maí að báðum dögum meðtöldum. Þetta er á prófatíma háskólans.

Fari háskólakennarar í verkfall lamast starfsemi skólans algjörlega. Þó að prófessorar og stundakennarar leggi ekki niður vinnu þá geta þeir ekki lagt próf fyrir nemendur sína.

Jörundur Guðmundsson, formaður Félags háskólakennara, segir að það megi ekki halda próf nema undir stjórn kennslusviðs og prófstjóra og þetta fólk sé í Félagi háskólakennara.

„Við stöndum fastir á því að það verði ekki haldin nein próf. Það þarf að auglýsa prófafyrirkomulag í upphafi misseris. Það er ekki hægt að breyta því allt í einu núna,“ segir Jörundur.

Haldnir hafa verið nokkrir árangurslausir sáttafundir í deilunni og í dag er nýr sáttfundur boðaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×