Innlent

Upphitað reykskýli við Kringluna

Freyr Bjarnason skrifar
Skýlið við inngang Kringlunnar er bæði upphitað og upplýst.
Skýlið við inngang Kringlunnar er bæði upphitað og upplýst. Fréttablaðið/Daníel

Reykskýli hefur verið reist fyrir framan annan innganginn á fyrstu hæð Kringlunnar.

Framkvæmdin tengist endurnýjun á aðalinngöngunum fimm í húsið en sá fyrsti var endurnýjaður fyrr á árinu. Skýlið er upphitað og upplýst og kostaði á þriðju milljón króna.

„Við höfum sett okkur það markmið við endurnýjun á inngöngum í húsið að koma upp svona aðstöðu þar sem annars vegar reykingamenn geta verið í skjóli og hins vegar að þeir sem ganga um inngangana okkar geta gert það án þess að ganga í gegnum eitthvert reykjarkóf. Markmiðið er að koma til móts við báða aðila,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar.

Kvartað hefur verið yfir reykingamönnum fyrir framan innganga Kringlunnar, sérstaklega á neðri hæðinni. „Við höfum fengið flestar athugasemdir við inngangana sem eru ekki undir beru lofti,“ segir Sigurjón Örn og bætir við að ætlunin sé að reisa annað reykskýli á fyrstu hæðinni síðar á þessu ári. Hinum tveimur verði bætt við seinna.

„Þetta kostar allt skildinginn en ég held að það muni skila sér þegar þetta er komið í gagnið alls staðar í ánægðari viðskiptavinum, bæði reyklausum og þeim sem reykja.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.