Innlent

Upphitað reykskýli við Kringluna

Freyr Bjarnason skrifar
Skýlið við inngang Kringlunnar er bæði upphitað og upplýst.
Skýlið við inngang Kringlunnar er bæði upphitað og upplýst. Fréttablaðið/Daníel
Reykskýli hefur verið reist fyrir framan annan innganginn á fyrstu hæð Kringlunnar.

Framkvæmdin tengist endurnýjun á aðalinngöngunum fimm í húsið en sá fyrsti var endurnýjaður fyrr á árinu. Skýlið er upphitað og upplýst og kostaði á þriðju milljón króna.

„Við höfum sett okkur það markmið við endurnýjun á inngöngum í húsið að koma upp svona aðstöðu þar sem annars vegar reykingamenn geta verið í skjóli og hins vegar að þeir sem ganga um inngangana okkar geta gert það án þess að ganga í gegnum eitthvert reykjarkóf. Markmiðið er að koma til móts við báða aðila,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar.

Kvartað hefur verið yfir reykingamönnum fyrir framan innganga Kringlunnar, sérstaklega á neðri hæðinni. „Við höfum fengið flestar athugasemdir við inngangana sem eru ekki undir beru lofti,“ segir Sigurjón Örn og bætir við að ætlunin sé að reisa annað reykskýli á fyrstu hæðinni síðar á þessu ári. Hinum tveimur verði bætt við seinna.

„Þetta kostar allt skildinginn en ég held að það muni skila sér þegar þetta er komið í gagnið alls staðar í ánægðari viðskiptavinum, bæði reyklausum og þeim sem reykja.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.