Á síðasta ári var stofnað teymi sem vinnur að greiningu á einhverfu meðal fullorðinna. Teymið er lítið og samanlagt starfshlutfall fyllir varla eina stöðu. Samt sem áður hefur teymið greint tvo fullorðna einstaklinga á mánuði með einhverfu og biðlistinn er langur, eða um það bil eins og hálfs árs bið.
„Það skiptir heilmiklu máli fyrir einstaklinginn að fá greiningu,“ segir Páll Magnússon, sálfræðingur og teymisstjóri einhverfuteymis á Landspítalanum.
„Það veitir honum nýjan skilning á sjálfum sér og það er oft ákveðinn léttir sem fylgir því. Einnig bætir rétt greining þjónustuna við hann.“

Miðað við fæðingartölu upp á fimm þúsund börn á ári má reikna með að 60-70 börn greinist með einhverfu í hverjum fæðingarárgangi. Páll segir líklega skýringu fyrir aukningu vera að þekkingin hefur aukist og greiningartæknin batnað.
„Það má því gera ráð fyrir að vel yfir hundrað fullorðnir af hverjum tíu þúsund sé með ógreinda einhverfu. Vegna þessa var teymið stofnað og greining á fullorðnum gerð markviss.“
Þeir sem greinast með einhverfu í teyminu eru almennt með fulla greind en hafa aldrei fengið skýringu á því af hverju þeir eru allt öðruvísi en aðrir.
„Við greiningu skoðum við þroskasöguna og þá sjáum við að þetta hefur fylgt einstaklingnum allt lífið. Jafnvel strax í leikskóla falla þeir ekki inn í hópinn sem getur verið niðurbrjótandi fyrir sjálfsmyndina og börn finna sér neikvæðar skýringar á þessu; að þau séu ljót, vitlaus og mislukkuð.“

„Það fylgir því mikil sorg að fá greiningu því það þýðir að þetta mun ekki batna,“ segir Lára Kristín Brynjólfsdóttir, sem greindist með einhverfu 27 ára gömul. „En greiningin var á sama tíma svarið sem ég hafði þráð síðan ég fæddist.“
Lára hefur alltaf upplifað sig eina. „Mér finnst enginn skilja mig. Ég á ekki einn einasta vin og er því mjög einmana. Ég myndi helst vilja búa með öðrum einhverfum, sem eru með fulla greind og getu til að vinna, og fá að finna mig í lífinu.“