Innlent

Kannast ekki við að börnum sé sagt upp

Eva Bjarnadóttir skrifar
Formaður Barnavistunar segist ekki kannast við uppsagnir hjá dagforeldrum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Formaður Barnavistunar segist ekki kannast við uppsagnir hjá dagforeldrum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. fréttablaðið/Valli
Formaður Barnavistunar, félags dagforeldra, segir félagsmenn ekki kannast við að dagforeldrar segi eldri börnum upp til að koma yngri börnum að. Samfélagssíða félagsins hefur logað vegna málsins. Fulltrúi meirihlutans í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur segir hagsmuni foreldra og dagforeldra ekki alltaf fara saman.

„Ég hef ekki heyrt um þetta í mínu félagi og held að þessi tilfelli séu fá. Það logar allt á Facebook-síðunni okkar þar sem margir fullyrða að þeir starfi ekki svona. Maður setur ekki barn út í kuldann,“ segir Guðný Ólafsdóttir, dagmóðir og formaður Barnavistunar.

Guðný segir dagforeldra í miðborginni síður lenda í vandræðum heldur en dagforeldrar í úthverfum þegar börn komast inn á leikskóla. „Ég starfa í hverfi 105 þar sem eftirspurnin eftir dagforeldrum er mjög mikil og lendi því aldrei í svona vandræðum,“ útskýrir hún.

Guðný segir dagforeldra í Reykjavík hafa staðið í ströngu við að fá borgina til þess að virða mánaðar uppsagnafrest og að það sé nú gert í flestum tilfellum. Dagforeldrar hafi mánuð til þess að fylla laus pláss.

Eva Einarsdóttir, borgarfulltrúi og talsmaður meirihlutans í Reykjavík í málefnum dagforeldra, segir leitt að heyra að dagforeldrar finni sig knúna til að segja börnum upp.

Eva segir framlag borgarinnar með börnum vera óháð aldri þeirra, en eftir því sem þau eldist aukist vissulega líkurnar á því að þau fái leikskólapláss.

„Eftir hrun hafa nærri öll börn fengið pláss á haustin, en eftir því sem fjármagn hefur leyft höfum við boðið börnum fæddum í janúar og febrúar pláss utan skilgreinds tíma,“ segir Eva, en hagsmunir foreldra og dagforeldra fari ekki alltaf saman í þessu tilliti.

Eva segir skóla- og frístundasvið vera í miklu sambandi við dagforeldra til þess að miðla upplýsingum um leikskólapláss.

Sigrún Edda Lövdal, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík, sagði við Fréttablaðið í vikunni að dagforeldrar vilji fá leyfi borgarinnar fyrir því að hafa tímabundið fleiri börn en leyfilegt er til að koma í veg fyrir uppsagnir. Eva segir borgina fara eftir reglugerð í þeim efnum.

„Ég skil vel að einhver hugsi að það sé í lagi að hafa tímabundið aukabarn, en við viljum að foreldrar geti treyst því að farið sé að reglum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×