Innlent

Efstu sæti Sjálfstæðisflokksins óbreytt í Reykjavík

Kristján Hjálmarsson og Andri Ólafsson skrifar
Halldór Halldórsson, Júíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon.
Halldór Halldórsson, Júíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon.
Lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður ekki breytt frá niðurstöðu prófkjörs flokksins í nóvember og því verður hann skipaður karlmönnum í þremur efstu sætum. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Kjörnefnd flokksins í Reykjavík mun í dag leggja þessa tillögu fyrir fulltrúaráðsfund en eina breytingin sem gerð verður á listanum fyrir borgarstjórnarkosningarnar 31. maí næstkomandi er sú að frambjóðendur fyrir neðan þriðja sæti færast einu sæti ofar þar sem Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi, sem hafnaði í fjórða sæti í prófkjöri, mun ekki taka sæti á lista.

Þórey Vilhjálmsdóttir og Jarþrúður Ásmundsdóttir
Ekki verður farið að kröfum þeirra sem kallað hafa eftir fleiri konum í forystusæti á listanum en hávær krafa þar um heyrðist eftir prófkjör flokksins þar sem ljóst varð að karlmenn skipa efstu þrjú sætin. Þeir eru Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon.

Framkvæmdastjórn Landsambands sjálfstæðiskvenna sendi frá sér yfirlýsingu í desember þar sem sambandið harmaði hversu hlutur kvenna væri rýr í efstu sætum lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor ef niðurstöður prófkjörsins yrðu látnar standa og hvatti kjörnefnd til að nýta sér það svigrúm til breytinga sem hún hefur. Nýkjörinn formaður Landssambandsins er Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.

Þáverandi formaður sambandsins, Jarþrúður Ásmundsdóttir, sagði í kjölfar prófkjörsins að það að stilla upp körlum í þrjú efstu sætin geti ekki talist sigurstranglegur listi og sagði niðurstöðuna mikil vonbrigði fyrir sjálfstæðiskonur.

Það er Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem boðar til fundarins þar sem endanleg ákvörðun verður tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×