Innlent

„Karlar í þremur efstu sætunum getur ekki talist sigurstranglegur listi“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Jarþrúður Ásmundsdóttir.
Jarþrúður Ásmundsdóttir.
„Þetta er ekki góð niðurstaða fyrir konur í Sjálfstæðisflokknum en fyrst og fremst er þetta slæm niðurstaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður landssambands sjálfstæðiskvenna.

Karlar raða sér í þrjú efstu sætin eftir aðrar tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er í fjórða sæti en ólíklegt þykir að hún nái að vinna sig upp um sæti. Hún sóttist eftir efsta sæti en er um 550 atkvæðum á eftir Kjartani Magnússyni sem er í 1.-3. sæti. Halldór Halldórsson er efstur og Júlíus Vífill Ingvarsson kemur þar skammt á eftir þegar um helmingur atkvæða hefur verið talin.

„Það að stilla upp körlum í þrjú efstu sætin getur ekki talist sigurstranglegur listi,“ segir Jarþrúður og telur að niðurstaðan í prófkjörinu séu mikil vonbrigði fyrir sjálfstæðiskonur.

„Þetta er ekki flokknum til framdráttar. Það voru margar öflugar konur sem buðu sig fram og það kemur mér á óvart að reynslumikill borgarfulltrúi eins og Þorbjörg Helga skuli ekki vegna betur. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir konur í Sjálfstæðisflokknum. Það sem var einmitt svo gleðilegt fyrir þetta prófkjör var að sjá tvær konur bjóða sig fram í efsta sætið og fleiri sem sóttust eftir sætum ofarlega á listanum. Þetta er ekki skref í rétta átt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×