Innlent

Jón Ásgeir og Tryggvi vilja átta milljónir króna hvor

Brjánn Jónasson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í Hæstarétti í fyrra.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í Hæstarétti í fyrra.
Tveir sakborningar í skattahluta Baugsmálsins krefjast um átta milljóna króna miskabóta hvor fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þeir vilja að auki að sektir sem þeir voru dæmdir til að greiða verði endurgreiddar, sem og málskostnaður, samtals yfir 100 milljónir króna.

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, voru dæmdir fyrir skattalagabrot í febrúar í fyrra. Þeir kærðu niðurstöðu Hæstaréttar til Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim forsendum að þeim hafi verið refsað tvisvar fyrir sömu sakir.

Vilja þeir Jón Ásgeir og Tryggvi meina að þar sem yfirskattanefnd sektaði þá fyrir brotin hafi ekki verið heimilt að ákæra þá og dæma fyrir sömu brot. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu, og var sú niðurstaða kærð til mannréttindadómstólsins. Meðferð málsins er langt komin hjá dómstólnum.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, segir að dómurinn bíði þess nú að ríkið taki afstöðu til bótakröfu tvímenninganna. Ríkið hefur tvívegis fengið frest til að skýra afstöðu sína, síðast fram í byrjun febrúar. Þegar það er komið er ekkert því til fyrirstöðu að dómstólinn felli dóm sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×