Innlent

Óttast yfirvofandi hækkanir á vöruverði

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir hækkanir mikið áhyggjuefni.
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir hækkanir mikið áhyggjuefni. Fréttablaðið/vilhelm
„Uppleggið í þessum kjarasamningum og skilaboð frá atvinnurekendum eru þau að halda eigi aftur af verðhækkunum eins og hægt er. Þar af leiðandi er það mikið áhyggjuefni þegar innlendir framleiðendur hækka verð á sínum vörum því það mun skila sér út í verðlagið,“ segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu aðspurður um fullyrðingar Gunnars Inga Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Hagkaupa, á Bylgjunni í dag. Þar sagði Gunnar að verðhækkanir væru yfirvofandi.

„Það eru nú þegar fjórir birgjar sem boðað hafa einhverjar hækkanir á sínum vörum, allt frá 3% og upp í 7%, þrátt fyrir styrkingu krónunnar.“ Hann nefndi nokkur dæmi og sagði að ís frá Emmess komi til með að hækka um 4,5%, próteindrykkurinn Hámark hækkar um 5%, Freyju sælgæti hækkar um 7%, brúnegg um 4,2% og Lýsi um 3-4%.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ræddi einnig við Reykjavík síðdegis og sagði að mikilvægt væri að ná tökum verðbólgunni og ná niður vöxtunum enda íslenskt atvinnulíf eitt það skuldsettasta í heimi. „En ef þetta gerist svona, að atvinnulífið ætli að nota þessa stöðu til þess að hækka sína álagningu og auka sinn hagnað, þá fá þeir bara til baka aukna verðbólgu og vaxtahækkanir og ég sé ekki hvernig þeim verður mikið betur borgið við það.“

Mörg fyrirtækjanna sem Gunnar minntist á eru innan Samtaka iðnaðarins. Svana Helen Björnsdóttir, formaður samtakanna, segir í samtali við Fréttablaðið að hún hvetji eindregið til þess að verð á vöru og þjónustu verði ekki hækkað.

Hlusta má á viðtölin við þá Gunnar og Gylfa í Reykjavík síðdegis hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×