Innlent

Verður að bæta launakjör

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það verði að auka kaupmátt jafnt og þétt á næsta ári og komandi árum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það verði að auka kaupmátt jafnt og þétt á næsta ári og komandi árum.
 „Þetta er viðsnúningur hjá forsætisráðherra. Í aðdraganda kjarasamninga í desember vildi hann ekki hækka persónuafslátt sem hefði þó komið sér best fyrir þá sem lökust hafa kjörin,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi sínu að á nýju ári og á árunum sem eftir fylgja þurfi að auka kaupmátt hér á landi jafnt og þétt.

„Sérstaklega þarf að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægst launuðustu en þau eru miklu lakari en við getum talið ásættanlegt á Íslandi,“ sagði forsætisráðherra og bætti við að það þyrfti líka að rétta hlut millitekjuhópanna sem hefðu tekið á sig miklar byrgðar á undaförnum árum.

„Forsætisráðherra bendir réttilega á að þessir kjarasamningar skili raunverulegri kaupmáttaraukningu og áfram verði unnið að því að auka kaupmátt þeirra sem hafa lægst laun og millitekjuhópa. Þetta er sú stefna sem við höfum viljað marka. Ég get ekki séð annað en forsætisráðherra sé að lýsa ánægju sinni með kjarasamningana,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Björn segist ekki líta svo á að forsætisráðherra hafi verið að gagnrýna kjarasamninga sem undirritaðir voru milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífis í desember. „En hann er greinilega að strengja áramótaheit um að ríkisstjórnin ætli að gera betur þegar kemur að hinum lægstlaunuðustu,“ segir Björn.

„Ég fagna orðum forsætisráðherra. Ég held að hann sé að taka undir með okkur sem mótmæltum kjarasamningnum,“ segir Arnar G. Hjaltalín, formaður verkalýðsfélagsins Drífandi í Vestmannaeyjum, en félagið var eitt fimm félaga innan Starfsgreinasambandsins sem neitaði að skrifa undir desembersamninginn.

„Við lítum vongóð til kjarasamninga opinberra starfsmanna sem eru framundan. Ég held að opinberir starfsmenn eigi hauk í horni núna,“ segir Arnar.

„Ég fagna orðum forsætisráðherra. Orð hans gefa til kynna stefnubreytingu,“ segir Árni Stefán Jónsson formaður Stéttarfélags í almannaþágu.

„Við erum að hefja gerð nýrra kjarasamninga við ríkið. Það verður áhugavert og spennandi að sjá hverju við mætum við samningaborðið, hvort að áherslurnar hafa breyst. Það er merkilegt að þessi yfirlýsing komi nú. Í samningum ASÍ og SA voru menn virkilega að reyna að fá ríkisstjórnina til bæta kjör þeirra sem hafa lægstu launin,“ segir Árni.

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður Bandalags háskólamenntaðra starfsmanna segir að viðræður við ríkið séu að hefjast. „Þeð eru jákvæð skilaboð frá forsætisráðherra í aðdraganda kjarasamninga að það þurfi að rétta hlut millitekjuhópa,“ segir Guðlaug. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×