Fótbolti

Curitiba-borg gæti misst HM-leikina sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jerome Valcke á Baixada-leikvanginum í Curitiba-borg
Jerome Valcke á Baixada-leikvanginum í Curitiba-borg Vísir/NordicPhotos/Getty
Jerome Valcke, framkvæmdastjóri FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, hefur miklar áhyggjur af stöðu mála í uppbyggingu Baixada leikvangsins í Curitiba-borg í Brasilíu. Valcke er nú í heimsókn í Brasilíu til að skoða stöðuna í undirbúningi Brasilíumanna fyrir HM í fótbolta sem fer fram í landinu í sumar.

Valcke sagði að menn í Curitiba væru orðnir miklu meira en seinir. Hann hefur samt trú á því að vinnan klárist nógu snemma fyrir heimsmeistarakeppnina en til að svo verði þurfi menn að gefa í.

Valcke talaði um að Brasilíumenn hafi frest til 18. febrúar til að sýna fram á að leikvangurinn í Curitiba verði klár í tæka tíð. Ef ekki þá þarf hugsanlega að finna nýjan leikstað fyrir þá leiki sem eiga fara fram á vellinum.

Átta lönd eiga að spila á vellinum og slík breyting myndi eflaust kalla á fjölda annarra breytinga í skipulagningu mótsins.

Níutíu prósent vinnunnar er að baki en verkið hefur tafist vegna vandamála staðarliðsins, Atletico Paranaense, að útvega pening til framkvæmdanna. Arena da Baixada er einn af sex leikvöngum sem eru enn ekki tilbúnir en staðan er langverst í Curitiba-borg sem er í suður Brasilíu.

Baixada-leikvangurinn á að hýsa fjóra leiki í riðlakeppni HM í sumar en það eru eftirtaldir leikir: Íran-Nígería (16. júní), Hondúras-Ekvador (20. júní), Ástralía-Spánn (23. júní) og Alsír-Rússland (26. júní).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×