Innlent

Óttast að lítið verði úr tillögum um bætta póstverslun

Brjánn Jónasson skrifar
Aukið frelsi í póstsendingum gæti haft áhrif á verslun á Íslandi.
Aukið frelsi í póstsendingum gæti haft áhrif á verslun á Íslandi. Fréttablaðið/Arnþór
„Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég sá þessi svör, enda hélt ég að þetta mál nyti velvildar,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, um svör fjármálaráðherra við fyrirspurn Marðar á Alþingi um póstverslun.

Mörður Árnason
Mörður spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um ráðstafanir fjármálaráðuneytisins í framhaldi af tillögum starfshóps um póstverslun. Hópurinn skilaði skýrslu sinni í desember í fyrra.

Meðal þess sem starfshópurinn lagði til var að aðflutningsgjöld verði felld niður af póstsendingum að verðmæti 2.000 króna eða undir. Í svörum fjármálaráðherra kemur fram að vel komi til greina að innleiða slíka reglu, enda væri af því talsvert hagræði fyrir neytendur og þá sem höndli með sendingar. 

Ráðherra tekur ekki jafn vel í aðrar tillögur hópsins, sem snéru flestar að breytingum til að einfalda póstverslun. Vísað er til þess að hafa þurfi samráð við tollstjóra og ríkisskattstjóra áður en ákveðið sé að gera breytingar á kerfinu.

„Ég óttast að það verði ekki mikið gert með vinnu starfshópsins,“ segir Mörður. Hann segir það vonbrigði. „Menn hafa talað um það bæði í stjórnmálum og viðskiptalífinu að það þurfi einfaldara Ísland, skera á bönd reglugerða og kerfis til að auka viðskipti og samskipti bæði innanlands og utan í nafni frjálsrar verslunar.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×