Innlent

„Okkur er skylt að sinna þessu“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Salmann Tamimi segir löngu tímabært að móðurmálskennsla sé í stundarskrá nemenda.
Salmann Tamimi segir löngu tímabært að móðurmálskennsla sé í stundarskrá nemenda. vísir/anton brink
Salmann Tamimi, sem er á lista Dögunar fyrir borgarstjórnarkosningarnar, finnst löngu kominn tími á móðurmálskennslu í leik- og grunnskólum landsins. Þetta kom fram á fundi sem teymi um málefni innflytjenda hélt með frambjóðendum til borgarstjórnarkosninga í gær.

„Móðurmálskennsla á að vera í stundarskrá barnanna en ekki sem tómstundatilboð eða námskeið um helgar. Kennari í hverju tungumáli getur flakkað milli skóla og kennt móðurmálið. Þetta ætti að hafa byrjað fyrir löngu, þetta þarf ekki að kosta mikið og okkur er skylt að sinna þessu. Þetta er bara spurning um forgang,“ segir Salmann.

Dagur B. Eggertsson segir að betur megi ef duga skal varðandi móðurmálskennslu innflytjenda.
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, sem einnig var á fundinum tók undir orð Salmanns varðandi mikilvægi málsins. 

„Við gerum okkur grein fyrir að það þarf að gera betur í þessum málum. Ný skimunarpróf sem meta stöðu barna með íslensku sem annað tungumál sýna okkur að við þurfum að efla kennsluna og ég hef heyrt áhyggjur frá fólki innan skólakerfisins og úr röðum innflytjenda. Aðferðirnar sem við höfum reynt hafa ekki skilað nægilega miklum árangri og við erum með það í stefnuskrá að bæta okkur verulega þarna,“ segir Dagur.

Fulltrúar frá öðrum flokkum sem bjóða fram til borgarstjórnarkosninga tóku einnig undir mikilvægi móðurmálskennslu og má segja að mikil sátt hafi myndast um málið í pallborðsumræðum.




Tengdar fréttir

Öll börn eiga rétt á móðurmáli

Móðurmál barna af erlendum uppruna er ekki kennt í íslensku menntakerfi. Renata Pesková Emilsson segir mikilvægt fyrir sjálfsmynd barnanna og tækifæri þeirra til náms að fá móðurmálskennslu. Það veiti einnig mikilvægan grunn til að ná tökum á íslenskunni.

Nám í móðurmáli á ekki að vera valkvætt

Hópur nemenda með annað móðurmál en íslensku fer stækkandi, en fær þó ekki kennslu í sínu móðurmáli nema að litlu leyti. Hingað til hefur móðurmálskennsla verið valkvæð nema ef undan er skilin kennsla í sænsku, norsku og pólsku. Nemendur sem sækja tíma í framangreindum tungumálum eru þá undanskildir námi í dönsku.

Vandamáli ýtt inn í framtíðina

Fréttablaðið sagði frá því fyrr í vikunni að þrátt fyrir ákvæði laga og aðalnámskrár grunnskóla fengju börn innflytjenda afar takmarkaða kennslu í eigin móðurmáli. Um sex prósent barna í íslenzkum grunnskólum hafa annað móðurmál en íslenzku. Alls konar rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess að börn fái haldgóða kennslu í eigin móðurmáli,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×