Innlent

Hættur við að taka fótinn af

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Meinið hefur verið Konráð til ama í 34 ár.
Meinið hefur verið Konráð til ama í 34 ár. Samsett mynd/Vísir
Fyrir 34 árum varð Konráð Ragnarsson ljósmyndari og leikari fyrir óhappi með veiðibyssu. Glappaskot úr ófrágenginni byssunni skaut burt stóran hluta vinstri fótar Konráðs, og hefur hann falið meinið síðan. Fyrir þremur mánuðum ákvað Konráð í samráði við lækna sína að fóturinn skyldi fjúka, en Vísir.is fjallaði um málið. Síðan þá hefur honum snúist hugur.

Læknir Konráðs vildi endilega að hann færi á endurhæfingardeild landspítalans við Grensás. Eftir tæpa tveggja mánaða bið eftir viðtali fékk Konráð loks að tala við lækni, og varð það til þess að honum snerist hugur. Læknirinn fór með Konráð í gegnum ferlið sem fylgdi fjarlægingu fótarins.

Hann sagði mér að það kæmu oft þangað sjúklingar sem væru kannski ekki búnir að gera sér grein fyrir hvað þeir þyrftu að ganga í gegnum eftir að þeir væru búnir að missa löppina," sagði Konráð. "Svo vakna þeir upp við vondan draum, þetta er heilmikið prógram og gengur misjafnlega vel. Þá kemur sjokkið.

Konráð segist opinn fyrir öllum öðrum möguleikum. Þá hafi komið til greina að taka vöðvavefi úr baki Konráðs og græða það á sundurslitinn fótinn. Þó fylgi því ákveðin hætta.

Það er engin örugg leið heldur, sko. Ef það misheppnast þá er maður búinn að missa löppina, og það verður ekki aftur tekið," segir Konráð.

Ýmsar hættur fylgja því að halda fætinum óbreyttum. Sýkingar geta komið í sárið og einhver hætta er á blóðtappa. Einnig gæti komið drep í fótinn. Konráð hreinsar og skiptir um sárabindi á fætinum á hverjum degi.

Ákveðin pattstaða stendur yfir á málinu. Ætla Konráð og læknir hans að hugsa málið og velta því fyrir sér næstu 2-3 mánuði. Ég vona bara að ég drepist ekki af þessu meðan ég hugsa málið," sagði Konráð. 


Tengdar fréttir

Fóturinn fýkur loksins af ... sennilega

Konráð Ragnarsson skaut sig í fótinn með haglabyssu fyrir 34 árum og hefur búið við óbærilegan sársauka æ síðan. Hann hefur gefist upp og fóturinn verður fjarlægður – þó hann geti ekki fengið sig til að segja það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×