Innlent

600 fengu samning um dreifingu lyfjakostnaðar

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Greiðsludreifing er ætluð þeim einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að greiða lyf vegna lágra tekna eða óvænts lyfjakostnaðar og bera þeir engan kostnað vegna hennar.
Greiðsludreifing er ætluð þeim einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að greiða lyf vegna lágra tekna eða óvænts lyfjakostnaðar og bera þeir engan kostnað vegna hennar. mynd/Getty
Greiðsludreifing lyfjakostnaðar hefur gefist vel. Rúmlega 600 einstaklingar hafa fengið samning um dreifingu lyfjakostnaðar hjá Sjúkratryggingum Íslands frá því að nýtt lyfjagreiðslukerfi tók gildi 4. maí í fyrra. Þetta kemur fram á vefsíðu Velferðarráðuneytisins.

Greiðsludreifing er ætluð þeim einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að greiða lyf vegna lágra tekna eða óvænts lyfjakostnaðar og bera þeir engan kostnað vegna hennar.

Heildarfjárhæð að baki þeim rúmlega 600 samningum sem gerðir voru árið 2013 nemur um 8,5 milljónum króna. Til samanburðar má geta þess að frá 4. maí 2013 til áramóta nam almennur lyfjakostnaður 4.579 milljónum króna. Umfang greiðsludreifingar á sama tíma er því um 0,19% af lyfjakostnaði.

Í kjölfar endurskoðunar rammasamnings Sjúkratrygginga Íslands um greiðslujöfnun um áramót hefur verið að ákveðið að framlengja hann án breytinga.

Flestar umsóknirnar um greiðsludreifingu bárust í júní og júlí á síðasta ári. Umsóknum fækkaði verulega í ágúst og þeim hélt áfram að fækka til ársloka. Í desember bárust 14 umsóknir.

Greiðsluþátttökukerfið er þrepaskipt og virkar þannig að hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst innan 12 mánaða tímabils.

Í fyrsta þrepi greiðir einstaklingurinn lyf að fullu, í öðru þrepi greiðir hann 15 prósent af verði lyfja og í þriðja þrepi greiðir hann 7,5 prósent. Þegar lyfjakostnaður hefur náð ákveðnu hámarki fær hann lyf að fullu greidd af sjúkratryggingum það sem eftir er af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×