Innlent

Verslunarmenn í Borgartúni ósáttir með breytingar

Elimar Hauksson skrifar
Hlöðver Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Einar Farestveit, segir breytingarnar í Borgartúni vera ópraktískar og öryggi gangandi vegfarandi sé ekki nægilega tryggt.
Hlöðver Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Einar Farestveit, segir breytingarnar í Borgartúni vera ópraktískar og öryggi gangandi vegfarandi sé ekki nægilega tryggt. mynd/GVA
Forsvarsmenn fyrirtækja í Borgartúni eru margir hverjir ósáttir með þær breytingar sem hafa verið gerðar í götunni. Þetta segir Hlöðver Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Einar Farestveit í Borgartúni 28.

Hlöðver segir að þrátt fyrir að upplyfting hafi orðið á útliti Borgartúnsins frá þvi sem var áður, þá sé gatan jafn „ópraktísk“ eða „kaótísk“ og frekast geti verið. Hún sé bæði illa hönnuð fyrir þá starfsemi sem þrífst í Borgartúni auk þess sem öryggi vegfarenda sé ekki nægilega tryggt. breytingarnar hafi fækkað bílastæðum á svæðinu en fyrir sé mikill skortur á bílastæðum.

„Það er búið að þrengja götununa umtalsvert og hér myndast langar biðraðir ef til dæmis strætisvagn stoppar, þá er bara allt stopp,“ segir Hlöðver.

Hlöðver segir nýja ljósastaura ekki tryggja öryggi gangandi vegfaranda nægilega og mikil hætta geti skapast þegar bílar aki yfir gangstéttir inn á bílastæði.

„Lýsingin beinist mest á götuna en ekki á gangsstéttina eða hjólastígana og nýtist því lítið þeim sem þar eru á ferðinni. Það er nánast myrkur á gagnstéttunum. Gangandi vegfarendur og hjólafólk verður því minna sýnilegt sem dregur úr öryggi þeirra og setur þá vegfarendur í hættu,“ segir Hlöðver.

Hlöðver Þorsteinsson segir breytingarnar í Borgartúni vera ópraktískar og öryggi gangandi vegfarenda sé ekki nægilega tryggt.Mynd/Valli
Bílastæðavandinn stækkar

Hlöðver segir að erfitt sé fyrir ökumenn að átta sig á hvar innkeyrslur á bílastæði sem geti skapað mikla hættu.

„Bílar eru oft að keyra þvers og kruss yfir gangstéttina, upp á gangstéttabrúnir, með viðeigandi hættu fyrir gangandi og hjólandi. Gangandi vegfarendur átta sig heldur ekki á hvar innkeyrslur eru sem maður hefði talið mikilvægt til að gæta að öryggi sínu og hvar von er á umferð,“ segir Hlöðver. 

Hlöðver segir skort á bílastæðum í Borgartúni vera vandamál og að borgin hafi aukið þann vanda með framkvæmdunum þar sem 30 bílastæði hafi nú þegar tapast á framkvæmdunum og 20 til viðbótar muni tapast þegar framkvæmdir halda áfram í átt að Snorrabraut.

„Svar Borgarinnar við þessu er að hver bygging hafi sín eigin bílastæði samkvæmt skipulagi og að þetta sé svo lítill hluti af heildarbílastæðunum í Borgartúninu að þetta skipti ekki máli. Það stemmir ekki að vera með gríðaleg bílastæðavandamál og fækka bílastæðum á sama tíma,“ segir Hlöðver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×