Innlent

Blikar aflýstu miðilsfundi með Þórhalli

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hætt hefur verið við skyggnilýsingarkvöldið.
Hætt hefur verið við skyggnilýsingarkvöldið.
Hætt hefur verið við skyggnilýsingarfund þar sem Þórhallur Guðmundsson miðill átti að koma fram í fjáröflunarskyni fyrir 4. flokk drengja Breiðabliks í knattspyrnu. Fundurinn átti að fara fram annað kvöld í Smáraskóla í Kópavogi og var fyrirhugaður aðgangseyrir tvö þúsund krónur.

„Þetta kvöld verður ekki. Þetta kvöld verður ekki á vegum Breiðabliks: Einfalt mál,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar félagsins. Hann vildi ekki fara nánar í ástæður þess. Í bréfi sem fjáröflunarnefnd 4. fokks karla sendi foreldrum kemur fram að viðburðinum sé aflýst „vegna óviðráðanlegra ástæðna“.

Fundurinn með Þórhalli var auglýstur víða með merkjum Breiðabliks. Auglýsingin er svohljóðandi:

„Eru skilaboð til þín að handan!

Fimmtudaginn 6. Febrúar kl 20 stendur 4.fl. knattspyrnudeildar karla í Breiðablik fyrir Skyggnilýsingarfundi með Þórhalli Guðmndssyni miðli.

Fundurinn er haldinn í Smáraskóla og er til styrktar 4.fl.karla í knattspyrnudeild Breiðabliks, sem stefna á ferð á Danacup knattspyrnumót í Danmörku i sumar. Miðasala við innganginn og vissara að mæta snemma því það er von á margmenni.

Aðgangseyrir er kr. 2000.-„

Fjáraflanir geta verið af ýmsum toga

„Ég veit lítið um málið, annað en að hætt hefur verið við þennan fund,“ segir Tryggvi Hafstein, formaður barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Breiðabliks. Hann segir foreldra í hverjum flokki fyrir sig skipuleggja svona fjáraflanir. „Það er ekki sótt sérstaklega um neitt til Breiðabliks. Flokkarnir standa í hinum ýmsu fjáröflunum, hvort sem það eru dósasafnanir eða eitthvað annað slíkt. En það hefur verið hætt við þessa fjáröflun, hvers vegna veit ég ekki.“

Ekki náðist í Þórhall þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.