Fótbolti

Jóhann Berg: Mörg lið úr sterkum deildum í Evrópu áhugasöm

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Vísir/Nordicphotos/Getty
Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson segir það fullvíst að hann muni ekki fara frá AZ Alkmaar í Hollandi áður en lokað verður fyrir félagaskipti í lok mánaðarins. Samningur hans rennur út í lok tímabilsins og hefur hann á undanförnum vikum og mánuðum verið reglulega orðaður við önnur lið.

„Maður hefur heyrt þetta héðan og þaðan en það er alveg ljóst að ég fer ekki í janúar. Ég mun fara í sumar,“ sagði Jóhann Berg við Fréttablaðið í gær.

Hann gerði forráðamönnum AZ ljóst að hann vildi reyna eitthvað nýtt eftir að hafa dvalið í fimm ár í Hollandi. Honum er nú frjálst að ræða við önnur lið en segist lítið hafa skipt sér af því.

„Umboðsmaðurinn minn sér um öll þau mál. Það hafa mörg lið úr sterkum deildum í Evrópu verið áhugasöm. En ég ætla að bíða til loka tímabilsins og skoða hvaða kostir standa mér til boða þá,“ segir Jóhann Berg sem getur því farið frítt frá AZ í sumar.

Hann segist vera opinn fyrir öllu en horfir til þess að komast að í sterkari deild. „England, Þýskaland og Spánn koma helst til greina hjá mér sem og ítalska deildin. Ég vona að það verði úr að ég fari í einhverja af þessum deildum,“ sagði Jóhann Berg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×