Innlent

Æskilegt að ásökunum sé ekki beint að röngum aðilum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mynd/gva
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir æskilegt að landbúnaðarráðherra og formaður Bændasamtakanna vandi málflutning sinn, en í fréttum Stöðvar 2 í gær segir Sindri Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, að nauðsynlegt sé að „stöðva þær blekkingar sem hafa tíðkast varðandi upprunamerkingar á landbúnaðarvörum í verslununum“. Þetta tók Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra undir í fréttatímanum.

„Æskilegt er að landbúnaðarráðherra og formaður bændasamtakanna vandi málflutning sinn og beini ekki ásökunum að röngum aðilum,“ segir í tilkynningu frá Finni.  „Það er nú staðfest og öllum ljóst að íslenskir kjúklingaframleiðendur, svínakjötsframleiðendur og Mjólkursamsalan, fyrirtæki í eigu bænda, hafa flutt inn erlendar landbúnaðarvörur og selt sem innlenda framleiðslu.  Ef landbúnaðarráðherra og formaður bændasamtakanna líta á umrædd tilvik sem blekkingu, er eðlilegt að þeir tali skýrt og að þeir beini gagnrýni sinni í rétta átt, en ekki að versluninni.“

Hann segir verslanir Haga fylgjandi upprunamerkingum á landbúnaðarvörum og telja nauðsynlegt að reglur séu settar þar um.  Mikilvægt sé í þágu viðskiptavina að upplýsingar um uppruna vöru séu skýrar og réttar.

„Þær landbúnaðarvörur sem verslanir Haga flytja inn, m.a. allt kjöt og ostar eru merktar upprunalandi, þannig að viðskiptavinir vita hvaðan varan er sem þeir kaupa og hvaða innihald er í vörunni. Verslanir Haga vilja gjarnan koma að vinnu með ráðherra og bændasamtökunum sem snýr að bættum hag viðskiptavina sinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×